Hoppa yfir valmynd
22. mars 2021 Forsætisráðuneytið

Ræða Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á Búnaðarþingi 22. mars 2021

Komiði öll sæl.

Mér er það sannur heiður að fá að ávarpa ykkur hér í dag á Búnaðarþingi; heiður og ánægja.

Ég hef iðulega sagt – og raunar hef ég styrkst í þeirri trú – að innlendur landbúnaður og innlend matvælaframleiðsla verði ein stærstu pólitísku mál 21. aldarinnar.

Undanfarin misseri sem einkennst hafa af margháttuðum hamförum undirstrika þetta. Fárviðri, snjóflóð, skriðuföll, heimsfaraldur og nú síðast eldgos varpa ljósi á samfélag okkar; styrkleika þess og veikleika. Heimsfaraldurinn sem nú geisar hefur til að mynda sýnt okkur

hversu mikilvægt það er að eiga sterkt heilbrigðiskerfi þar sem allir eiga jafnan aðgang að þjónustu.

hversu mikilvægt það er að eiga öflugt velferðarkerfi og öflugt félagskerfi sem grípur fólk þegar það missir atvinnu og lífsviðurværi.

hversu mikilvægt það er að eiga öflugt menntakerfi og hversu mikilvæg ákvörðun það var að halda skólum opnum eins og kostur var því það tryggði í senn menntun barna og eðlilegan gang í atvinnulífi og samfélagi – og um leið var tekið tillit til kynjasjónarmiða því konur hefðu verið líklegri en karlar til að sinna börnum heima.

Hversu mikilvægt það er að eiga öfluga innviði á sviði raforku, fjarskipta og samgangna og þar hefur núverandi ríkisstjórn ráðist í sérstakt átak; meðal annars flýtt lagningu jarðstrengja. Þá hefur verið flýtt framkvæmdum í ofanflóðavörnum sem var löngu tímabært.

Og að einhverju leyti sýna þessar hamfarir allar hversu mikilvægt það er að eiga öfluga innlenda matvælaframleiðslu.

Við erum ekki sjálfum okkur nóg þegar kemur að matvælaframleiðslu og að sjálfsögðu munum við alltaf flytja inn matvæli. En við getum og eigum að setja okkur metnaðarfull markmið þegar kemur að því að auka hlutfall innlendra matvæla í því sem við neytum.

Það er áhugavert að skoða hlut ólíkra búgreina í innlendu matvælaframboði á Íslandi. Garðyrkjan sér fyrir um 43% af framboði grænmetis, búfjárræktin sér fyrir um 90% af kjöti, 96% af eggjum og 99% af mjólkurvörum.

Nýlegt var svo slegið fram – ekki byggt á vísindalegu mati - að innan við helmingur af dæmigerðri innkaupakörfu landsmanna væri innlend framleiðsla – en það væri áhugavert að fá staðfestar niðurstöður ef rannsókn yrði framkvæmd á þessu.

Og þessi hlutföll geta breyst hratt. Ef við skoðum til dæmis nautakjöt voru 80% af því sem við borðuðum íslenskt og 20% voru innflutt í fyrra – en hér hefur orðið töluvert mikil breyting á skömmum tíma því fyrir tíu árum þegar 96% alls nautakjöts sem við borðuðum voru íslensk og 4% innflutt.

Með skýrri stefnu um aukið hlutfall innlendrar framleiðslu í því sem við neytum getum við í senn tryggt fæðuöryggi– það er að við tryggjum aðgengi að mat með aukinni innlendri framleiðslu og matvælaöryggi – þar sem við höfum betri tök á að tryggja heilnæmi matvæla, til dæmis með skýrum reglum um sýklalyfjanotkun. Um leið vinnum við gegn loftslagsbreytingum með því að draga úr flutningum heimshorna á milli á mat sem hægt er að framleiða hér – samhliða því að við vinnum saman að því að skýra markmiði að íslenskur landbúnaður verði kolefnishlutlaus eigi síðar en 2040.

Og þegar við ræðum um innlendan landbúnað er mikilvægt að muna að matarvenjur landsmanna verða stöðugt fjölbreyttari. Uppgangur grænkerafæðis felur í sér fyrst og fremst tækifæri fyrir grænmetisbændur og sýnir sú ákvörðun stjórnvalda að setja aukið fjármagn í samninga við garðyrkjubændur aukinn metnað á þessu sviði og þar er markmið garðyrkjubænda um fjórðungsaukningu á grænmetisframleiðslu innan tveggja ára framsýnt og til fyrirmyndar. Þar eru svo sannarlega sóknarfæri.

Þannig var 91% af því blómkáli sem við Íslendingar neyttum 2018 innflutt blómkál – sem hæglega er hægt að rækta hér.

Sama ár voru 65% allra gulrætna sem við borðuðum innflutt – aftur grænmeti sem er auðvelt að rækta hér.

Meira að segja er meirihluti allra tómata sem við neyttum þetta ár, 2018, innfluttur – eða 56%.

 

Ný matvælastefna fyrir Ísland sem kynnt var fyrr á þessu ári endurspeglar metnaðarfulla sýn stjórnvalda þegar kemur að matvælum. Hún byggist á fimm grunnþáttum. Að við tryggjum aukna verðmætasköpun, við hugum að fjölþættum hagsmunum neytenda með því að tryggja góð og heilnæm matvæli á sanngjörnu verði, að við tryggjum matvæla- og fæðuöryggi, að við tryggjum að matvælaframleiðsla stuðli að markmiðum okkar í loftslagsmálum og að það sem við borðum stuðli að bættri heilsu. Í matvælastefnunni er viðfangsefnið tekið fyrir út frá hinni breiðu sýn en í framhaldinu ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að ráðast í gerð landbúnaðarstefnu sem von er á á vormánuðum.

Ég hef fylgst með þróun umræðunnar á meðal íslenskra bænda og veit að bændur deila þessari nálgun – að styrkurinn í okkar smáa samfélagi felist ekki síst í að hafa breiða sýn, tengjast betur á sama tíma og við höldum vörð um sérþekkingu og sérstöðu. Það verður spennandi að fylgjast með niðurstöðu þeirra umræðna sem þið munið eiga hér á Búnaðarþingi um breytingar á félagskerfi bænda. Von mín er sú að niðurstaðan sem fæst verði í breiðri sátt og til þess fallin að styrkja rödd bænda.

Kæru gestir.

Aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum byggist á góðu samstarfi við allar atvinnugreinar, ekki síst bændur. Í þessari viku munum við ræða nýja fjármálaáætlun sem dreift verður á Alþingi í dag en þar er enn bætt við fjármunum í aðgerðir okkar í loftslagsmálum til að tryggja að Ísland nái að standa við þau nýju og uppfærðu markmið um samdrátt í losun og aukna kolefnisbindingu sem við kynntum í desember síðastliðnum. Þar munum við meðal annars í samstarfi við bændur og aðra landeigendur efla enn frekar það starf sem unnið er að í í landgræðslu og skógrækt, vernd og endurheimt votlendis. Þá verður loftslagsaðgerðum í landbúnaði hraðað og við vonumst til að fá enn fleiri bændur í samstarf um að taka þátt í loftslagstengdum verkefnum.

Ég tel ekki aðeins að stjórnvöld eigi að setja sér skýr markmið í samráði við fulltrúa bænda um aukið hlutfall innlendrar matvælaframleiðslu af því sem við neytum. Ég tel einnig að við eigum að setja okkur skýr markmið um aukinn lífrænan landbúnað. Oft hef ég fundið ákveðna togstreitu milli þeirra sem stunda það sem við getum kallað hefðbundinn landbúnað og þeirra sem stunda lífrænan landbúnað. En á Íslandi er einmitt tækifæri til að sleppa þeirri togstreitu alfarið. Við erum í allt annarri stöðu en þau lönd þar sem finna má risavaxnar matvælaverksmiðjur sem framleiða fyrir risamarkaði.  Viðhöfum einmitt getað varðveitt okkar búfjárstofna og tryggt að sýklalyfjanotkun og notkun annarra aðskotaefna er lítil. Við eigum að líta svo á að í lífrænum landbúnaði felist enn frekari sóknarfæri fyrir innlenda matvælaframleiðslu, tækifæri til að stækka kökuna, auka verðmætasköpun og auka fjölbreytni.

Kæru gestir á Búnaðarþingi.

Ég var alin upp í því að velja íslenskt. Bæði vegna þess að foreldrum mínum fannst íslenskar landbúnaðarvörur góðar en líka vegna þess að það skiptir máli að styðja við sitt nærsamfélag. Þannig tel ég reyndar að okkur sé mörgum farið – ekki síst þegar kemur að matvælum.

Matvæli skipta okkur nefnilega miklu máli. Hvort sem maður reynir að gleðja maka sinn með góðri máltíð – eða gefur nýfæddu barni sínu mjólk – þá fela matvæli í sér mikla meira en bara næringu. Þau fela í sér umhyggju og ást gagnvart sjálfum sér og öðrum og þess vegna hugsum við líklega öll svona mikið um mat! Og kannski mætti kalla innlendan landbúnað hluta af umhyggjuhagkerfinu – því það að gefa einhverjum að borða felur í sér mikla umhyggju. Það er gríðarlega mikilvægt og fallegt hlutverk sem íslenskur landbúnaður hefur að gegna fyrir okkur öll. Ég þakka ykkur fyrir að sinna því á hverjum degi. Byggjum á þeirri góðu vinnu sem unnin hefur verið á undanförnum misserum og blásum til sóknar fyrir íslenskan landbúnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum