Hoppa yfir valmynd
5. maí 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp Guðmundar Ing Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra á ársfundi Veðurstofu Íslands

Ágæta samkoma.

STIKLAÐ Á STÓRU Í LOFTSLAGSMÁLUM

Loftslagsváin er stóra áskorun samtímans. Sama hvernig heimurinn snýst þá eru viðbrögðin við henni stóra verkefnið sem fyrir okkur liggur. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að loftslagsmál þurfi að vera í kjarna allra ákvarðana sem við tökum, hvort sem við tökum þær í vinnunni eða heima. Hvort sem við erum að taka ákvarðanir um skipulagsmál, skattlagningu, viðhald á húsinu heima eða hreinlega hvað við ætlum að borða í kvöld.

Eitt af því sem ég lagði áherslu á þegar ég kom í umhverfis- og auðlindaráðuneytið, fyrir rúmum þremur árum síðan, var að snúa við blaðinu í loftslagsmálum. Ég hef haft þá sýn að áætlunum eigi að fylgja fjármagn. Þannig hefur fjármagn til loftslagsmála bara í umhverfisráðuneytinu aukist um ríflega 700% á þessu kjörtímabili.

Fyrir daga núverandi ríkisstjórnar hafði ríkt pólitísk kyrrstaða í loftslagsbaráttunni á Íslandi. Það var ekki til nein áætlun um samdrátt í losun. Engin stefna um kolefnishlutleysi. Engin stefna eða áætlun um aðlögun samfélagsins að loftslagsbreytingum. Ég leyfi mér að fullyrða að blaðinu hafi nú verið snúið við:

  • Við höfum gefið út og uppfært fyrstu fjármögnuðu aðgerðaáætlunina í loftslagsmálum.
  • Við höfum sett fram efld markmið Íslands í loftslagsmálum.
  • Við höfum hafið vinnu við tillögugerð um hvernig megi ná kolefnishlutleysi.
  • Við höfum tekið stór skref í orkuskiptum – og náð miklum árangri á því sviði.
  • Við höfum líka meira en tvöfaldað aðgerðir í landgræðslu og skógrækt og tífaldað endurheimt votlendis af hálfu hins opinbera.
  • Og, við höfum styrkt stjórnsýslu loftslagsmála, með auknum mannauði í ráðuneytinu og á stofnunum, og með sérstakri ráðherranefnd um loftslagsmál og ráðuneytisstjórahópi.

Ég vil meina að með þessu öllu saman – og reyndar ýmsu fleiru – hafi verið lagður mikilvægur grundvöllur í umhverfis- og loftslagsmálum, sem Ísland framtíðarinnar geti byggt ofan á.

AÐLÖGUN

Við þekkjum það vel á þessu landi (og kannski ekki hvað síst fólkið á þessum fundi) að við þurfum að búa okkur undir ýmisskonar sviðsmyndir sem framtíðin gæti borið í skauti sér.
Það er að segja, að þótt við leggjum mesta áherslu á að draga úr losun og auka kolefnisbindingu þurfum við líka að gæta þess að samfélag okkar og innviðir aðlagist aðsteðjandi breytingum í umhverfi okkar.

Aukin úrkomuákefð, hækkun sjávarborðs og súrnun og hlýnun sjávar. Allt eru þetta áhrif loftslagsbreytinga sem við verðum að bregðast við. Grundvöllur slíkra viðbragða og skipulags þeirra er að búa að og byggja upp úrvals þekkingu og skilning á nærumhverfi okkar. Þar spilar Veðurstofa Íslands veigamikið hlutverk.

VÍSINDASKÝRSLUR OG VÍSINDANEFND

Með breytingum á lögum um loftslagsmál sem ég mælti fyrir á Alþingi og samþykktar voru árið 2019 er umhverfis- og auðlindaráðherra falið að láta reglulega vinna vísindaskýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Þar eru settar fram nýjustu og bestu upplýsingar um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi hverju sinni, en Veðurstofunni er falið að leiða þessa vinnu með aðkomu sérfræðinga á sviði náttúruvísinda og samfélagslegra þátta.

Þrisvar hafa verið unnar slíkar vísindaskýrslur, síðast árið 2018. Það er mér ánægja að tilkynna að skipan ritnefndar næstu vísindaskýrslu er nú lokið.

STEFNA UM AÐLÖGUN

Í lok síðasta árs setti ég einnig af stað vinnu við gerð tillögu að stefnu um aðlögun Íslands að loftslagsbreytingum, með skipan starfshóps. Drög að slíkri stefnu eru á lokametrunum.

Nágrannaríki okkar hafa sett sér slíka stefnu og það er mikilvægt að við gerum það einnig. Veðurstofan kemur að þessari vinnu og gegnir þar mikilvægu hlutverki.

Starfshópnum er m.a. ætlað að líta til skýrslu Loftslagsráðs sem kom út í fyrra, undir yfirskriftinni Að búa sig undir breyttan heim sem og áðurnefndra vísindaskýrslna vísindanefndar. Þegar starfshópurinn hefur lokið störfum sínum síðsumars eða í haust eigum við að vera komin með stefnu um aðlögun og munu stjórnvöld vinna áætlun Íslands um aðlögun að loftslagsbreytingum á grundvelli hennar.

RANNSÓKNIR OG VÖKTUN – og meira um aðlögun

Ljóst er að við þurfum á komandi árum að setja aukinn kraft í að kortleggja afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir Ísland og hvað þær þýða fyrir innviði okkar og samfélag, þótt heilmikið hafi verið gert nú þegar. Rannsóknir og vöktun á veðurfari og veðurfarsþáttum eru grunnstoðir í slíku skipulagi aðlögunar. Fyrir aðra kima samfélagsins er mikilvægt að læra að lesa í og vinna með slíkar upplýsingar við ákvarðanatöku.

Hér hefur vísindasamfélagið mikilvægu hlutverki að gegna í því að tryggja að stofnanir, stjórnvöld og almenningur geti átt upplýst samtal og samráð um skipulag og viðbrögð við loftslagsvá.

Á síðustu tveimur árum hefur fjármagn til rannsókna og vöktunar vegna loftslagsbreytinga og umhverfismála aukist til muna. Má þar nefna fjármagn til rannsókna á sjávarstöðubreytingum og skriðuföllum, vöktun jökla og rannsóknir á súrnun sjávar. Markáætlun Vísinda- og tækniráðs og Loftslagssjóður styrkja líka rannsóknir, nýsköpun og fræðslu á sviði sjálfbærni og loftslagsmála.

Og, í dag stígum við líka mikilvægt skref fram á við. Það er mér mikil ánægja að tilkynna um aukið framlag ráðuneytisins til Veðurstofu Íslands, svo koma megi á sérstakri skrifstofu hjá stofnuninni:

Skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar sem ætlað er að verða samstarfsvettvangur fagstofnana, hagaðila og vísindasamfélags.

Með stofnun þessa vettvangs er ætlunin að tryggja aðgengi allra þeirra sem þurfa að taka ákvarðanir eða skipuleggja aðlögunaraðgerðir að haldgóðum upplýsingum um mögulega þróun ýmissa áhrifa loftslagsbreytinga til skemmri og lengri tíma.

Við þurfum t.d. að þekkja áhrif ofankomu á skriðuhættu þegar við skipuleggjum byggðir landsins. Eins byggist mat á flóðahættu til framtíðar á að við skiljum þróun sjávarstöðu og vatnsbúskap með tilliti til bráðnunar jökla. Aðlögunarhlið loftslagsmála tengist einnig þróun atvinnuvega, t.d. ýmis konar iðnaðarstarfsemi, sjávarútvegs, landbúnaðar og ferðamála, sem og öðrum beinum eða óbeinum samfélagslegum áhrifum, réttlátum umskiptum, áhrifum á lýðheilsu m.a. með auknu frjókornaregni og breytingum í skordýrafánu landsins svo eitthvað sé nefnt.

Allt þetta þarf að taka til greina.

Áhrif loftslagsbreytinga---sú loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir og hefur stundum verið nefnd hamfarahlýnun---er hins vegar ekki einungis bundin við hamfarir. Til viðbótar við að vera vel á verði gagnvart hamfarakenndum atburðum þarf að skoða til hlítar hvernig loftslagsbreytingar geta magnað upp ýmsa áhættu á smærra tjóni hér á landi vegna veðurs, aukið tíðni heilsufarskvilla, þ.m.t. geðheilsu, og eins möguleg áhrif vegna afleiðinga loftslagsbreytinga utan landsteinanna.

Eins og gefur að skilja er aðlögun að loftslagsbreytingum gríðar víðfeðmur málaflokkur og í raun hugsanagangur sem samfélagið í heild þarf að tileinka sér á næstu árum. Það eru ótal afleidd samfélagsleg áhrif og margskonar mögulegt tjón. En aðgerðir til aðlögunar geta einnig búið til ný störf og ef rétt er á málum haldið eiga þær að skapa okkur sterkari innviði og loftslagsþolnara samfélag en ella, þar sem áhætta á samfélagslegum skaða vegna áhrifa loftslagsbreytinga er lágmörkuð. Við þessar breytingar þarf að huga vel að réttlátum umskiptum.

STEFNA UM AÐLÖGUN

Stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum, sem ég minntist á hérna áðan, mun skýra betur skipulag í þessum umfangsmikla krika loftslagsmálanna. Í þeirri vinnu munum við njóta góðs af tilurð nýrrar skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar, með bestu fáanlegu upplýsingar og ráðgjöf á reiðum höndum.

ÞAKKIR OG LOKAORÐ

Ágæta samkoma.

Síðasta eitt og hálft árið hefur virkilega minnt okkur á mikilvægi þess að við séum vel undirbúin og vel á verði. Rigningar, skriður, skjálftar og eldsumbrot, í bland við farsótt, hafa skapað krefjandi aðstæður og valdið mörgu fólki miklu tjóni.

Veðurstofan og starfsfólk hennar er á meðal þeirra sem hafa staðið í ströngu undanfarið eitt og hálft ár í þeim margvíslegu áföllum sem dunið hafa á varðandi náttúruvá á Íslandi. Og þið hafið staðið ykkur með stakri prýði; sýnt af ykkur fagmennsku, þolgæði, yfirvegun og djúpa fagþekkingu. Og mig langar til þess að þakka ykkur fyrir það.

Ég veit að þið munið takast á við aðlögunarmálin, þetta nýja verkefni af metnaði og alvöru og ég hlakka til að sjá skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar verða að veruleika.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum