Hoppa yfir valmynd
25. júní 2021 Heilbrigðisráðuneytið

COVID-19: Aflétting allra samkomutakmarkana 26. júní

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að frá og með 26. júní næstkomandi falli úr gildi allar takmarkanir á samkomum innanlands. Í þessu felst m.a. fullt afnám grímuskyldu, nándarreglu og fjöldatakmarkana. „Í raun erum við að endurheimta á ný það samfélag sem okkur er eðlilegt að búa í og sem við höfum þráð, allt frá því að heimildir sóttvarnalaga til að takmarka samkomur voru virkjaðar vegna heimsfaraldurs fyrir rúmu ári, þann 16. mars 2020“ segir heilbrigðisráðherra. Ákvörðun um afléttingu allra samkomutakmarkana er í samræmi við tillögur sóttvarnalæknis. Þann 1. júlí taka gildi breyttar reglur varðandi sýnatökur á landamærum.

Um 87% þeirra sem áformað er að bólusetja hafa nú fengið a.m.k. eina sprautu, um 60% eru fullbólusett gegn Covid-19 og nú ættu öll sem ekki var áður búið að bjóða bólusetningu að hafa fengið slíkt boð. Áætlanir stjórnvalda um framgang bólusetningar og afléttingu samkomutakmarkana hafa því gengið eftir að fullu.

Takmarkanir innanlands vegna Covid-19 hafa verið breytilegar á tíma heimsfaraldursins eftir stöðunni hverju sinni. Nándarregla og fjöldatakmarkanir hafa verið viðvarandi allt tímabilið, grímuskylda í einhverri mynd hefur gilt um langa hríð. Takmarkanirnar hafa gert það að verkum að allri mögulegri starfsemi hefur verið þröngt sniðinn stakkur og á tímabilum legið alveg niðri. Menningarlíf, íþróttastarf, skólastarf, veitingarekstur, ferðaþjónusta og fjölmargt annað hefur markast af gildandi reglum um samkomutakmarkanir á hverjum tíma. Með ákvörðun heilbrigðisráðherra um afléttingu allra samkomutakmarkana verða reglur um samkomur ekki háðar öðrum takmörkunum en almennt gilda í samfélaginu og giltu áður en heimsfaraldurinn skall á. 

Landamærin: Hætt að skima börn og fólk með vottorð um bólusetningu eða fyrri sýkingu

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið breytingar á sóttvarnareglum á landamærum sem taka gildi 1. júlí og gilda til 15. ágúst. Þessar breytingar eru einnig í samræmi við minnisblað sóttvarnalæknis.

  • Þann 1. júlí verður sýnatökum hætt hjá þeim sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu með bóluefnum sem Lyfjastofnun Evrópu og/eða WHO hafa viðurkennt. Bólusetning telst gild tveimur vikum eftir að hlutaðeigandi fékk síðari skammt bóluefnis. (Uppfært 28. júní) 
  • Sýnatöku verður hætt hjá börnum sem fædd eru 2005 eða síðar.
  • Þau sem framvísa gildum vottorðum um bólusetningu og fyrri sýkingu af völdum Covid-19 og börn fædd 2005 og síðar þurfa ekki að framvísa neikvæðum PCR-vottorðum við komuna til landsins frá og með 1. júlí.
  • Í tilvikum þeirra sem ekki geta framvísað gildum vottorðum um bólusetningu gegn Covid-19 eða fyrri Covid-19 sýkingu þarf áfram að framvísa neikvæðu PCR-vottorði við byrðingu og á landamærum, undirgangast skimun með PCR-prófi við komuna til landsins og dvelja í sóttkví í 5 daga og undirgangast seinni skimun að henni lokinni.

Reglugerð um brottfall reglugerðar nr. 691/2021, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar

Reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna COVID-19

Minnisblað sóttvarnalæknis um afléttingar innanlands

Minnisblað sóttvarnalæknis um landamæri

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum