Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Moody's staðfestir A2 lánshæfiseinkunnir ríkissjóðs með stöðugum horfum

Alþjóða matsfyrirtækið Moody's Investors Service („Moody's“) hefur í dag staðfest A2 lánshæfiseinkunn ríkissjóðs í innlendum og erlendum gjaldmiðli. Horfur eru áfram stöðugar.

Moody´s tilgreinir einkum þrjár meginástæður fyrir staðfestingu lánshæfismats ríkissjóðs;

  1. Búist er við því að íslenska hagkerfið nái traustum bata með aðstoð sterkra og forvirkra stuðningsaðgerða stjórnvalda auk þess sem mikil fjárfesting og áframhaldandi bati í ferðaþjónustu styðja við hagvöxt á næstu árum;
  2.  Stofnanir hafa verið styrktar verulega og trúverðugleiki þeirra hefur batnað merkjanlega á undanförnum árum;
  3. Einsleitni og smæð hagkerfisins gera Ísland, að mati Moody‘s, útsett fyrir sveiflum og sértækum áföllum. Ólíklegt er að þetta breytist á næstu árum þrátt fyrir aðgerðir til að auka fjölbreytni hagkerfisins, að mati Moody´s.

Stöðugar horfur endurspegla í stórum dráttum jafnvægi ólíkra áhættuþátta. Til viðbótar við góðan efnahagsbata og traustar hagvaxtarhorfur eykur fyrri reynsla stjórnvalda af lækkun opinberra skulda traust og trúverðugleika á að það takist á næstu árum að styrkja fjárhagstöðu ríkissjóðs á ný. Samdráttur efnahagsumsvifa var minni í fyrra en óttast var í upphafi þar sem aðrar lykilgreinar en ferðaþjónusta reyndust þrautseigari. Hátt skuldahlutfall skýrist að hluta til af endurflokkun ríkisaðila sem gerð var síðla árs 2020 og breytir ekki grundvallarhorfum í ríkisfjármálum.

Þak á lánshæfiseinkunn í innlendri mynt er óbreytt í Aa1, fjórum þrepum yfir lánshæfiseinkunn ríkissjóðs. Þak á lánshæfiseinkunn í erlendri mynt var hækkað í Aa2 úr Aa3, og endurspeglar það fullt afnám gjaldeyrishafta með breytingum á gjaldeyrislögum nr. 70/2021 í lok júní 2021.

Horfur um lánshæfismat Íslands gætu orðið jákvæðar og lánshæfiseinkunn að lokum verið hækkuð ef viðsnúningur í ríkisfjármálum verður hraðari en búist er við. Aukin fjölbreytni sem leiða myndi til minni sveiflna í efnahagslífinu hefði jákvæð áhrif á einkunnina.

Þrýstingur gæti orðið til lækkunar á horfum um lánshæfismat og lánshæfiseinkunn ríkissjóðs ef stjórnvöld víkja verulega frá núverandi stefnumörkun um aðlögun í ríkisfjármálum til millilangs tíma og að ná stöðugu skuldahlutfalli um miðjan áratuginn, sem leiða myndi til verulegrar hækkunar á skuldahlutfalli hins opinbera. Efnahagsáfall sem myndi leiða til mikils og varanlegs tjóns fyrir ferðaþjónustuna eða verulegs fjármagnsútflæðis og myndi þar af leiðandi veikja ytri stöðu Íslands og ógna fjármálastöðugleika hefði einnig neikvæð áhrif á lánshæfismat. Það þykir þó ekki líkleg atburðarás.

Fréttatilkynning Moody's

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum