Hoppa yfir valmynd
6. september 2021 Innviðaráðuneytið

Ráðherra heimsótti ný húsakynni Byggðastofnunar

Magnús B. Jónsson formaður stjórnar Byggðastofnunar, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra byggðamála, heimsótti starfsfólk Byggðastofnunar í dag í nýju húsi stofnunarinnar á Sauðárkróki. Sigurður Ingi tók fyrstu skóflustungu að húsinu þann 16. nóvember 2018 og flutti stofnunin í nýja húsið í júlí 2020. Byggingin breytir miklu fyrir stofnunina sem er nú komin í nútímalegt skrifstofuhúsnæði sem er hannað í takt við kröfur og viðhorf nútímans. Á það sérstaklega við um samskipti starfsfólks innbyrðis og við samstarfsaðila og viðskiptavini. Hönnun aðstöðu starfsfólks er öll af vönduðustu gerð og mikið er lagt upp úr loftgæðum og lýsingu sem stórbætir vinnuaðstöðu starfsfólks.  Húsið getur rúmað nokkra fjölgun starfsmanna, auk þess sem í húsinu eru skipulagðar snertistöðvar sem bjóðast starfsmönnum annarra opinberra aðila sem vilja vinna að verkefnum sínum á Sauðárkróki til lengri eða skemmri tíma.

Á Byggðastofnun er unnið að fjölbreyttum verkefnum. Nýlokið er vinnu við gerð tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036. Ráðherra lagði tillöguna fram á Alþingi sl. vor og bíður hún nú umræðu. Tillagan er unnin af starfsfólki Byggðastofnunar og ráðuneytisins og er afurð víðtæks samráðs við almenning, sveitarfélög, ráðuneyti, atvinnulíf og hagsmunaaðila um land allt. Vonir standa til að hún verði tekin til umræðu og afgreiðslu á Alþingi nú á haustdögum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum