Hoppa yfir valmynd
17. september 2021

Von der Leyen leggur áherslu á sjálfstæði Evrópu

Að þessu sinni er fjallað um

  • stefnuræðu forseta framkvæmdastjórnarinnar
  • nýja skýrslu þar sem framkvæmdastjórnin rýnir í framtíðina
  • nýmæli við skattlagningu orku
  • fund sameiginlegrar þingmannanefndar EES í Reykjavík
  • septemberfund fjármálaráðherra ESB

 

Bjartara yfir en fyrir ári síðan

Ursula von der Leyen flutti Evrópuþinginu stefnuræðu sína 15. september sl., hið árlega State of the Union ávarp. Þetta er í annað skipti sem hún flytur þinginu boðskap sinn með þessu sniði. Í því eru lagðar línurnar fyrir helstu málin á næsta starfsári. Það má segja að mest áhersla hafi verið lögð á aukið sjálfstæði Evrópu til athafna, en það er orðið kunnuglegt stef í málflutningi framkvæmdastjórnarinnar sl. ár (strategic autonomy). Í því skyni ræddi hún um hálfleiðara og örgjörva, samvinnu aðildarríkjanna í hernaðar- og upplýsingamálum, sem og í netöryggismálum og heilbrigðismálum. Hún lagði þó einnig áherslu á samvinnu við önnur ríki og árangur sem hún hefði skilað, eins og í baráttunni við heimsfaraldurinn. Engu að síður yrðu ríki heims að leggja meira af mörkum til þess að takast sameiginlega á við stærstu áskorun okkar tíma, loftslagsbreytingar.

Heimsfaraldurinn – bóluefni

Fyrir ári síðan má segja að von der Leyen hafi staðið með storminn í fangið, önnur bylgja faraldursins í uppsiglingu og bóluefnin ókomin. Ári síðar hefur hún náð markmiðum sínum um að bólusetja meira en 70% Evrópubúa og ESB flutt út meira bóluefni en nokkur annar, reyndar hefur mest af því verið selt en ESB hefur einnig gefið meira bóluefni en aðrir  ̶  í lok þessa árs hafa meira en 250 milljónir skammta verið gefnar. Áríðandi væri að hraða bólusetningu heimsbyggðarinnar allrar og í ræðunni skuldbatt hún sig til að gefa aðrar 200 milljónir skammta þeim ríkjum sem mest þyrftu á þeim að halda. Jafnframt kom fram að 1,8 milljarðar skammta væru til reiðu fyrir örvunarbólusetningu.

ESB og heilbrigðismál – ný stofnun

Fyrir ári síðan boðaði von der Leyen að styrkja þyrfti valdheimildir framkvæmdastjórnarinnar á sviði heilbrigðismála (European Health Union) og auka viðbragðsflýti ef og þegar faraldur af þessu tagi bæri aftur að garði. Í því skyni var nú kynnt til leiks ný stofnun HERA (Health Emergency Preparedness and Response Authority). Til hennar á að verja 50 milljörðum evra á sjö árum en mörgum þykir hún þó ekki jafn metnaðarfull og sambærilegar stofnanir annars staðar, eins og BARDA í Bandaríkjunum. Hlutverk hennar verður að leitast við að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á að fleiri faraldrar geti brotist út með því að samhæfa viðbrögð, framkvæma rannsóknir og tryggja öryggi nauðsynlegra aðfanga, ef til þess kæmi.

Efnahagsmál

Efnahagur Evrópu hefur að miklu leyti náð sér á strik. Nítján ríki hefðu að sögn von der Leyen þegar rétt úr kútnum og búist væri við því að á næsta ári yrðu öll Evrópulönd komin á sama stig og fyrir heimsfaraldurinn. Hagvöxtur hefði verið meiri í Evrópu en bæði í Bandaríkjunum og Kína á síðasta ársfjórðungi.  Þá sagði hún að á næstu vikum yrði nauðsynlegt að ná samkomulagi til framtíðar um fjárhagsreglur sambandsins en aðildarríkin hafa undanfarið skipað sér í tvær fylkingar, syðri hlutinn vilji slaka á reglunum en sá nyrðri vilji halda þeim eins og þær eru.

Innri markaðurinn – sjálfstæði álfunnar

Innri markaðurinn verður brátt 30 ára. Í upphafi faraldursins hefði þurft að verja hann en síðar hefði innri markaðurinn reynst drifkraftur þeirra breytinga sem komið hefðu Evrópu á þann stað sem hún er í dag. Fyrir stafrænan innri markað væri nauðsynlegt að fjárfesta í tæknilegu sjálfstæði (tech sovereignty). Í því samhengi gerði hún hálfleiðara (semi-conductors) að umræðuefni og lagði áherslu á að Evrópa væri ekki uppá aðra komin með örgjörva. Þeir haldi þjóðfélaginu gangandi á marvíslegan hátt en Evrópa sé þó uppá Asíu komin með framboðið á þeim. Á því hafi mjög hægt að undanförnu. Evrópa verði að geta þróað og markaðssett sína eigin örgjörva og boðaði löggjöf á því sviði (European Chips Act).

Félagsleg réttindi

Von der Leyen minntist heilbrigðisstarfsfólks og framlags þeirra til að koma heimsbyggðinni í gegnum faraldurinn. Í því samhengi ræddi hún um félagsleg réttindi launafólks og hét því að styrkja viðleitni til að bjóða uppá mannsæmandi störf, betri vinnuskilyrði, heilbrigðisþjónustu og jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Að tryggja félagslegan jöfnuð sé líka spurning um sanngjarna skattlagningu, þ. á m. fyrirtækja. Ef þau skili hagnaði sé það vegna þess að þau eru starfrækt í samfélagi sem býr við sterka innviði, skilar þeim menntuðu starfsfólki sem nýtur góðrar heilbrigðisþjónustu og býr við öflugt velferðarkerfi. Af þessum sökum muni ESB fljótlega kynna til sögunnar löggjöf ætlaða til þess að elta uppi fjármuni sem skotið er undan skatti og styðji viðleitni OECD til þess að ná samstöðu um að koma á alþjóðlegum lágmarksskatti á fyrirtæki. 

Æskan

Von der Leyen varð tíðrætt um æskuna, áhrif faraldursins á hana og ábyrgð eldri kynslóða gagnvart hinum yngri. Ákveðið hafi verið að árið 2022 verði helgað æskunni (e. Year of European Youth). Komið verði upp nýrri áætlun, ALMA, sem geri ungu fólki kleift að starfa tímabundið í öðru aðildarríki, byggt á fyrirmynd ERASMUS fyrir námsmenn. Ungu fólki verði einnig tryggð áhrif og möguleikar til þátttöku í Ráðstefnunni um framtíð Evrópu (Conference on the Future of Europe) og áréttaði að framkvæmdastjórnin hefði skuldbundið sig til að fylgja eftir því sem þessi ráðstefna myndi samþykkja.

Loftslagsmálin

Unga fólkið knýi líka á um breytingar í umhverfismálum. Þau vilji ganga lengra, takast á við vandann af meira afli og vinna hraðar að settu marki. Flóðin í Belgíu og Þýskalandi og skógarbrunar í Grikklandi og Frakklandi sl. sumar hafi opnað augu margra og skýrsla Sameinuðu þjóðanna (IPCC skýrslan) hafi fært vísindalegar sannanir fyrir að loftslagsbreytingar séu af manna völdum. ESB hafi sett markið við 55% samdrátt árið 2030 og kynnt þinginu og ráðinu umfangsmiklar lagabreytingar til að ná því marki í júlí sl. (Fit for 55). Til að draga úr áhrifum þessara aðgerða á viðkvæma hópa verði stofnaður sérstakur sjóður Social Climate Fund auk þess sem framlög til að hlúa að líffræðilegum fjölbreytileika verði tvöfölduð.

COP26

Von der Leyen hét einnig á ríki heims að láta til sín taka á COP26 ráðstefnunni í Skotlandi og leggja fram útfærðar áætlanir um hvernig þau hyggist ná settu marki Parísarsáttmálans. Hún hvatti Kína til þess að hætta notkun kola og vera metnaðarfyllri í áætlunum sínum. Þá sagði hún frá því að ESB myndi bæta fjórum milljörðum evra við loftslagsjóð ætluðum þróunarríkjum og hvatti Bandaríkin til þess að auka verulega við aðstoð sína. Þá talaði hún fyrir tillögum um að verðleggja mengun enn frekar, m.a. innviðauppbyggingu og byggingar, en tillögurnar hafa verið gagnrýndar fyrir að ætla neytendum að borga brúsann.

Evrópskt varnarbandalag

Fram kom í ræðunni að NATO þurfi að svara áleitnum spurningum um hvað fór úrskeiðis í Afganistan. ESB vinni með aðalframkvæmdastjóra NATO að nýrri sameiginlegri yfirlýsingu (new EU-NATO Joint Declaration) sem verði kynnt fyrir árslok. Evrópa gæti hins vegar og væri reiðubúin að leggja meira af mörkum og færði rök fyrir hvers vegna þörf væri á því að mynda evrópskt varnarbandalag (e. European Defence Union). Hingað til hafi skort til þess pólitískan vilja en ef hann væri fyrir hendi, væri margt hægt að gera. Tók hún sem dæmi að nauðsynlegt væri að byggja upp betra þekkingarnet innan ESB og vinna að samhæfingu herja. Hugsanlega væri einnig hægt að afnema virðisaukaskatt af evrópskum hernaðargögnum keyptum af aðildarríkjum. Ekki væri lengur hægt að ræða varnamál án þess að fjalla um netöryggi. Verjast þurfi netógnum með sameiginlegri netvarnastefnu og nýrri löggjöf. Meta þurfi sameiginlega hverjar ógnirnar séu og hvernig við þeim verði brugðist. Í því skyni muni vegvísir ESB í varnar- og öryggismálum (Strategic Compass) gegna ákveðnu lykilhlutverki en einnig þurfi að skoða hvaða leiðir eru færar innan núverandi heimilda í stofnsáttamála ESB. Í því skyni muni hún ásamt Macron Frakklandsforseta boða til leiðtogafundar um evrópskar varnir þegar Frakkar fara með formennsku ráðsins á fyrri hluta næsta árs.

Flóttamannamál

Von der Leyen lýsti samstöðu með Litháen, Lettlandi og Póllandi í viðureigninni við flóttamannastrauminn frá Hvíta Rússlandi og tók undir með þeim að því fælist ný tegund fjölþáttaógnar sem ætlað væri að grafa undan stöðugleika í Evrópu. Í tengslum við þetta hvatti hún til að ný stefna í innflytjenda- og flóttamannamálum (Asylum and Migration Pact) sem ráðið hefur haft til umfjöllunar frá því á síðasta ári verði afgreidd sem fyrst. Tafir á því feli í sér veikleika sem andstæðingarnir muni nýta sér og spila á meðan þeir eru fyrir hendi, þ. á m. þeir sem stunda smygl á fólki og gera sér neyð þess að féþúfu.

Grundvallargildin

Í lokin minnti forsetinn á að samstarf Evrópusambandsríkjanna sé byggt á lýðræði og öðrum sameiginlegum grundvallargildum, þ. á m. fjölmiðlafrelsi. Þessi arfleifð sé samofin því sem skilgreini samfélög okkar í dag. Við höfum öll skuldbundið okkur til að virða þau og verja og falið dómstólunum að standa um þau vörð. Þeir eigi lokaorðið og dóma þeirra beri að virða og framfylgja í hverju og einu aðildarríkjanna. Það sé ekki aðeins göfugt markmið heldur brýn nauðsyn og viðvarandi áskorun. Úttektir á stöðu réttarríkisins og lögmætisreglunnar (e. Rule of law reports) muni framvegis innihalda tilmæli um það sem betur megi fara í hverju ríki um sig. Orð séu til alls fyrst en þeim verði að fylgja efndir á þeim fyrirheitum sem gefin eru. Engin ríki voru nefnd í þessu sambandi en engum blandast þó hugur um við hver er átt.

 

Rýnt í framtíðina: 10 áherslusvið ESB

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf 8. september síðastliðinn út í annað sinn framtíðarskýrslu sína: Strategic Foresight Report – The EU's capacity and freedom to act. Þar eru leidd rök að því að í samtímanum megi greina fjóra megin þróunardrætti á heimsvísu:. 1) Loftslagsbreytingar og umhverfisáskoranir, 2) Stafrænar ofurtengingar og tækniumbylting, 3) Lýðræði og önnur grunngildi eru á undanhaldi, 4) Breytingar á valdahlutföllum og fólksfjölda. Jafnframt er bent á 10 svið þar sem Evrópusambandið geti sótt fram og skapað sér sérstöðu:

  • Sjálfbær og viðnámsmikil heilbrigðis- og matvælakerfi
  • Orka sem er laus við kolefni og á viðráðanlegu verði
  • Aukin hæfni í stjórnun gagna, gervigreind og nýjustu tækni
  • Tryggt og fjölbreytt framboð af ómissandi hráefni
  • Forysta á heimsvísu í mótun staðla
  • Þrautseig og framtíðarheld efnahags- og fjármálakerfi
  • Mannauður í takt við metnaðarfull áform ESB
  • Aukinn öryggis- og varnarviðbúnaður og útrás út í geim
  • Samstarf á heimsvísu um frið, öryggi og farsæld allra
  • Þrautseigar stofnanir

Gert er ráð fyrir að framkvæmdastjórnin taki mið af ofangreindu í vinnu sinni á þessu kjörtímabili. Þá er tengslanet ráðherra framtíðarmálefna í aðildarríkjunum að störfum sem á að byggja upp hæfni til fyrirhyggju.

Síðar í mánuðinum mun framkvæmdastjórnin ljúka samráði um samanburð á aðildarríkjunum að því er varðar viðnámsþrótt. Sá samanburður á að vera framlag til nýs mælikvarða á frammistöðu ríkja, þar sem litið er heildsætt til velsældar fremur en fyrst og fremst til landsframleiðslu.

 

Breytt orkuskattlagning ESB mikilvægur liður í að ná loftslagsmarkmiðum

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt fram tillögu að nýrri tilskipun sem ætlað er að umbylta ríkjandi kerfi varðandi skattlagningu orkugjafa. Að mati ESB er núgildandi tilskipun sem tók gildi 2003 (Energy Taxation Directive 2003/96/EC - ETD) úrelt vegna þeirra róttæku breytinga sem orðið hafa á sviði loftslags- og orkumála á þessum tveimur áratugum. Gamla tilskipunin er sem sagt ekki lengur í takti við ríkjandi áherslur um nauðsyn þess að draga stórkostlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá vanti einnig alla hvata í ETD til að orkunotendur fjárfesti í grænum tæknilausnum.

Tillagan er hluti af stærra regluverki sem ætlað er að ná fram markmiðum sambandsins á sviði loftslags- og orkumála, sem birtist í The European Green Deal og einnig í Fit for 55, um 55% nettó samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030 miðað við árið 1990. Rétt er að nefna að endurskoðun á reglum um losunarheimildir, oftast kallað ETS-kerfið, er hluti af þessu regluverki.

Markmið nýrrar tilskipunar er að draga mjög úr notkun jarðefnaeldsneytis. Annars vegar með því að hækka verðið með aukinni skattlagningu og hins vegar með því að endurskoða undanþágur  og ívilnanir sem nú eru til staðar varðandi notkun jarðefnaeldsneytis hjá ýmsum atvinnugreinum. Þetta á t.d. við olíunotkun í landbúnaði og fiskveiðum en myndi einnig ná til orkufreks iðnaðar sem notar kol og olíu. Þá myndi ný tilskipun útrýma undanþágum fyrir flug- og sjósamgöngur til að ýta undir notkun á hreinu eldsneyti.

Tillagan er nú til umfjöllunar hjá Evrópuþinginu og Ráðinu. Eftir afgreiðslur þar munu EES/EFTA ríkin fá tilskipunina til nánari skoðunar og meta hvort hún sé EES-tæk. Þó að skattamál falli ekki með beinum hætti undir EES-samninginn er ljóst að tilskipunin kann að hafa áhrif á regluverkið um ríkisstyrki og samkeppnismál almennt, sem þarf að fylgjast vel með. Gert er ráð fyrir að tilskipunin taki gildi í ársbyrjun 2023 og komi til framkvæmda í nokkrum áföngum.

 

Fjölbreytt dagskrá á þingmannafundi í Reykjavík

Sameiginleg þingmannanefnd EES fundaði í Reykjavík 25. ágúst síðastliðinn. Dagskráin var fjölbreytt og var meðal annars rætt um loftslagsmál og nýjar tillögur ESB í því efni, rafræn Covid-19 vottorð sem dæmi um árangursríka Evrópusamvinnu og nýjar samstarfsáætlanir sem hleypt verður af stokkunum í ársbyrjun 2022. Þá var meðal annars einnig fjallað um Norðurslóðamál. Sjá frásögn og myndir á vef EFTA.

 

Sjálfbær fjármálastefna rædd á fundi fjármála- og efnahagsráðherra ESB 

Dagana 10. og 11. september  hittust fjármála- og efnahagsráðherrar ESB á óformlegum fundi í formennskuríkinu Slóveníu, m.a. til að ræða um hvers konar fjármálastefnu (e. fiscal policy) aðildarríkin ættu að reka á komandi árum. Samhljómur var um að áhrif loftslagsmála á stöðugleika fjármálakerfisins og þar með efnahagslífið réðu mestu um hvernig útfæra ætti stefnuna. Aukin fjárfesting í grænum og stafrænum verkefnum væri lykill að því að ríki ESB næðu sér upp úr Covid-kreppunni. Fjármögnun þeirra fjárfestinga er mikilvægur þáttur og þar skiptir stöðugur og heilbrigður fjármálamarkaður öllu máli. Jákvæð teikn eru um að efnahagsþróunin verði hagstæðari á þessu ári og því næsta heldur en áður var spáð og er nú útlit fyrir 4,8% meðalhagvöxt á árinu 2021 og 4,5% árið 2022 í aðildarríkjum ESB. Þá þróun þakka ráðherrar ESB hversu vel hefur til tekist með bólusetningar gegn Covid-veirunni og þeim stuðningsaðgerðum sem stjórnvöld gripu til.

Haldið verður áfram á sömu braut á næsta ári, en eftir það verða aðildarríkin smám saman að draga úr hallarekstri sínum og skuldasöfnun. Þó verða þau að gæta að því að stefna ekki sínum efnahagslega bata eftir Covid 19 í hættu og þar skiptir sjálfbær fjármögnun fjárfestinga miklu. Þar er Bjargráðasjóði ESB (e. Next Generation EU mechanism) ætlað stórt hlutverk. Rétt er að vekja athygli á að í tengslum við fundinn var kynnt áhugaverð skýrsla undir heitinu “A green fiscal pact: climate investment in times of budget consolidation”.

Verkefnið hvernig eigi að laga fyrirtækjaskattlagningu að stafrænni þróun (e. adapting corporate tax reform to the digital age) var líka til umræðu á fundi ráðherranna, sbr. samkomulag OECD ríkjanna og G20 fyrr á árinu. Lýstu aðildarríkin yfir samstöðu varðandi nauðsyn þessarar aðlögunar sem vonandi lyki með heildarsamstöðu á alþjóðavettvangi.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum