Hoppa yfir valmynd
1. desember 2021 Innviðaráðuneytið

Áframhaldandi uppbygging samgöngukerfis, jákvæð byggðaþróun og efling sveitarstjórnarstigs áherslumál ráðherra árið 2022

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á fjarfundi norrænna samgönguráðherra. - mynd

Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2022 hefur verið lagt fram á Alþingi. Framlög til verkefna samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis nema ríflega 80 milljörðum kr. Tímabundnum verkefnum í fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar er að hluta til að ljúka og því lækka fjárheimildir á milli ára um tæplega 4 milljarða eða 4,7%. 

Áframhaldandi uppbygging á innviðum samgöngukerfisins

  • 28.345 milljónir kr. til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu

Uppbygging vegakerfisins heldur áfram í samræmi við fjárfestingaátak stjórnvalda, verkefnin hafa skapað þúsundir starfa frá upphafi faraldursins. Framkvæmdir sem falla undir fjárfestingaátak ríkisstjórnarinnar er að hluta til að ljúka með góðum árangri. Það leiðir til lækkunar á framlagi til framkvæmda á vegakerfinu um 7.180 m.kr. Lækkunin kemur í kjölfar mikillar innspýtingar til fjárfestinga síðustu ár og áfram eru verulegar fjárhæðir til ráðstöfunar til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu, eða 28.345 m.kr. Framkvæmdir verða m.a. á Reykjanesbraut, Suðurlandsvegi, Vesturlandsvegi, Þverárfjallsvegi, Skagastrandarvegi, Vestfjarðarvegi um Gufudalssveit, Dynjandisheiði og vegna Fjarðarheiðarganga. 

Þegar horft er til fjárveitinga til uppbyggingar á vegakerfinu ber að nefna að til viðbótar við bein framlög til nýframkvæmda er gert ráð fyrir töluverðum fjárfestingum sem fjármagnaðar verða að hluta með öðrum hætti. Þannig er stefnt að því að unnið verði að vegaframkvæmdum um Hornafjarðarfljót, Axarvegi og nýrri brú yfir Ölfusá í samvinnu við einkaaðila.

Gert er ráð fyrir að á árunum 2022-2034 verði bein framlög til gangnagerðar 25,5 milljarðar kr., og muni sú fjárhæð standa undir helmingi framkvæmdakostnaðar. Það sem uppá vantar muni koma úr gjaldtöku af umferð í jarðgöngum. Heildarumfang fjárfestingarinnar á tímabilinu er því um 51 milljarður kr. 

  • 5.100 milljónir kr. til innanlandsflugvalla og hafna

Eins og fram hefur komið er fjárveitingum til tímabundinna verkefna í fjárfestingarátaki stjórnvalda að hluta til að ljúka. Eftir sem áður er fjárveiting til flugvalla og hafna með því mesta sem þekkist en framlögin hafa aldrei verið hærri en á yfirstandandi ári ef frá er talið yfirstandandi fjárlagaár 2021. Gert er ráð fyrir að fjárveiting til flugvalla verði 3.529 m.kr. Fjárveiting til hafnabótasjóðs nemur 1.571 m.kr. 

  • 15.589 milljónir kr. til annarra verkefna í samgöngumálum

Framlag til almenningssamgangna hækkar á milli ára og er nú um 4.300 milljónir. Má þar nefna sértækt framlag til almenningssamgangna að fjárhæð 150 m.kr., fjárveitingunni er ætlað að stuðla að umhverfisvænni almenningssamgöngum og breyttum ferðavenjum til að ná árangri í loftlagsmálum. Framlagið er innspýting í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. 

Unnið verður að uppbyggingu og fjármögnun almenningssamgangna og annarra samgöngumannvirkja á grundvelli samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins.

Byggðaverkefnið um Loftbrú heldur áfram en það felur í sér að íbúar á landsbyggðinni eiga kost á lægri flugfargjöldum til höfuðborgarinnar. Markmiðið með Loftbrú er að bæta aðgengi íbúa á landsbyggðinni að miðlægri þjónustu og efla byggðir með því að gera innanlandsflug að hagkvæmari samgöngukosti. 

Loks fellur undir þennan lið þjónusta á vegakerfinu með tæplega 6.500 milljónir kr.

Markvist verður unnið að því að efla net- og farskiptaöryggi

  • 835 milljónir króna kr. til fjarskipta- og netöryggismála

Áfram verður unnið að uppbyggingu fjarskiptainnviða utan markaðssvæða með undirbúningi verkefnis um Ísland fulltengt. 

Framlag til verkefnis um Ísland ljóstengt hefur verið fjármagnað í gegnum fjarskiptasjóð, sjóðurinn hefur í gegnum verkefnið styrkt 57 sveitarfélög til að leggja ljósleiðaranet í dreifbýli sínu. Á tímabilinu 2016-2021 hefur fjarskiptasjóður haft milligöngu um samninga við sveitarfélög að verðmæti 2.950 m.kr. eða um 490 m.kr. árlega að meðaltali. Gert er ráð fyrir að 571,1 m.kr. fjárveiting til fjarskiptasjóðs falli niður í fjárlögum 2022 þar sem verkefni um Ísland ljóstengt er lokið.  

Áhersla er á að efla netöryggismál og er gert ráð fyrir verulegri hækkun framlaga í fjármálaáætlun áranna 2022-2026. Fjárveiting til netöryggismála á árinu 2022 hækkar sem nemur 35 milljón króna í tengslum við innleiðingu laga um netöryggi.

Jákvæð byggðaþróun

  • 1.978 milljónir kr. til byggðamála

Til byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta fara 1.392 milljónir kr. 

Fjárveiting til byggðaáætlunar nemur 923 milljónum kr. og hækkar um 100 milljónir kr. á milli ára, þar af er 55 milljóna kr. fjárveiting til verkefnis um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði í kjölfar hamfaranna í desember 2020. 

Í málaflokknum verður lögð áhersla á að fjölga atvinnutækifærum á landsbyggðinni m.a. með störfum án staðsetninga í því skyni að skapa góðar aðstæður og þróa áfram hugmyndafræðina. Verkefnið um fjarvinnslustöðvar heldur áfram þar sem stofnanir geta sótt um styrk til að koma opinberum gögnum á stafrænt form og fjölga þar með atvinnutækifærum á landsbyggðinni. Áfram verður unnið að sértæku verkefni sóknaráætlanasvæða til að styðja við atvinnuþróun og nýsköpun. Framlög til þessara áætlana hafa hækkað mikið á undanförnum árum eins og myndin sýnir. 

Efling sveitarstjórnarstigs

  • 24.527  milljónir kr. til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga

Framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga hækka um 4.249 milljónir milli ára og verða 25.527 milljónir króna. 

Áfram verður unnið að því að efla sveitarstjórnarstigið, meðal annars með sameiningu sveitarfélaga og endurskoðun tekjustofna, að ógleymdum stórum framkvæmdum í samgöngum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum