Hoppa yfir valmynd
1. febrúar 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Kynnti sjálfbæran fjármögnunarramma á vel sóttum fjarfundi

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. - mynd

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti á vel sóttum fjarfundi IcelandSIF í síðustu viku, sjálfbæran fjármögnunarramma ríkissjóðs, sem birtur var í september sl. Fjármögnunarramminn hlaut „dökkgræna“ einkunn (e. Dark Green) hjá Cicero, Shades of Green, alþjóðlega viðurkenndum og sjálfstæðum vottunaraðila.

Samtökin IcelandSIF vinna að því að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Fjármála- og efnahagsráðherra fór á fundi samtakanna yfir markmið og áherslur stjórnvalda í baráttunni við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu og hlutverk ríkisins í að ýta undir grænt fjármálakerfi með því að sýna gott fordæmi og auka meðvitund um þessi mál.

„Eftir að hafa fylgst lengi með möguleikum til útgáfu á sjálfbærum skuldabréfum og vaxandi áhuga fjárfesta er útgáfa sjálfbærs fjármögnunarramma fagnaðarefni sem gefur ríkissjóði tækifæri til að sýna í verki viljann um sjálfbæra uppbyggingu,“ sagði ráðherra á fundinum.

Fjármögnunarramminn gerir kleift að fjármagna sérstök skilgreind verkefni sem falla í þrjá flokka:

  1. Græn verkefni (loftslags- og umhverfismál); t.d. innviðir fyrir rafhjól og reiðhjól, orkuskipti í bílaflota og þungaflutningum, grænar byggingar, varnir gegn snjóflóðum og náttúruvá, aðlögun að hringrásarhagkerfinu, endurheimt votlendis o.fl.
  2. Blá verkefni (loftslags- og umhverfismál tengd hafinu, sjávarútvegi og tengdum greinum); t.d. rafvæðing hafna, orkuskipti skipa og ferja, átak í fráveitumálum o.fl.
  3. Félagsleg verkefni; t.d. félagslegt húsnæði, sjúkrarými, atvinnusköpun m.a. COVID tengd útgjöld sem stuðningur við samfélagið og atvinnulífið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum