Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stuðningur við bændur vegna hækkunar áburðaverðs greiddur um næstu mánaðamót

Matvælaráðuneytið hefur tekið ákvörðun um ráðstöfun 700 m. kr. framlags í fjárlögum 2022 til að koma til móts við aukinn kostnað vegna áburðarkaupa. Gert er ráð fyrir að verja 650 m. kr. í beinan stuðning við bændur og 50 m. kr. í sérstakt átak um bætta nýtingu áburðar og leiðir til að draga úr notkun hans sem Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins (RML) verður falið að framkvæma samkvæmt sérstökum samningi þess efnis.

 

650 milljónum verður varið til greiðslu álags á jarðræktarstyrki og landgreiðslur sem greiddar voru árið 2021 samkvæmt rammasamningi landbúnaðarins og jarðræktarstyrki samkvæmt garðyrkjusamningi á árinu 2021. Alls fengu 1.534 bú slíkar greiðslur á liðnu ári vegna ræktunar á samtals 91.610 hekturum. Áætlað er að álagsgreiðslan þýði um það bil 79% álag á greiðslurnar 2021.  Gætt verður sérstaklega að búum sem nýir ábúendur hafa tekið við eftir að greiðslan 2021 fór fram. 

 

Áburðaverð hefur hækkað á síðustu misserum. Áburðarvísitala Alþjóðabankans hefur hækkað um 93% frá lokum síðasta áburðartímabils, m.a. vegna hækkunar á jarðgasi og COVID-tengdum framboðsáhrifum. Áætluð hækkun hérlendis frá síðasta ári er um 87% samkvæmt mati Hagstofunnar fyrir verðlagsgrundvöll kúabús.

 

„Með þessum aðgerðum komum við til móts við bændur og þá erfiðu stöðu sem þeir standa frammi fyrir. Við höfum lagt áherslu á að fjármunirnir skili sér sem fyrst til bænda og á sem einfaldastan hátt. Með þessari útfærslu náum við því fram. Ég býst við því að greiðslurnar verði afgreiddar strax um næstu mánaðamót. ,“ segir Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum