Hoppa yfir valmynd
3. mars 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra ávarpaði viðburð jafnréttisnefndar Evrópuþingsins

Frá viðburði jafnréttisnefndar Evrópuþingsins - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti lykilerindi á viðburði jafnréttisnefndar Evrópuþingsins í Brussel í morgun í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Í ávarpi sínu fór forsætisráðherra yfir sögu jafnréttis á Íslandi og hvernig kvennahreyfingin hefði byggt á samstöðu kvenna, þvert á flokka, kynslóðir og stéttir. Hún ræddi um mikilvægar kerfisbreytingar sem hafa stuðlað að jafnrétti - eins og fæðingarorlof sem skiptist jafnt mikli beggja foreldra, jafnlaunavottun og breytingar á þungunarrofslöggjöf til að styrkja sjálfsákvörðunarrétt kvenna.

„Þessar kerfisbreytingar hafa ekki komið af sjálfu sér heldur eru þær afrakstur baráttu sem  hefur skilað sér í pólitískri stefnumótun og raunverulegri viðhorfsbreytingu til jafnréttis,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. 

Þá ræddi forsætisráðherra um hina svokölluðu þriðju vakt sem COVID-19 faraldurinn ýkti upp þar sem aukið álag af heimilisstörfum bitnaði meira á konum en körlum. Einnig fór forsætisráðherra yfir þær mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 sem sérstaklega var ætlað að stuðla að jafnrétti kynjanna. Að lokum gerði forsætisráðherra baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi að sérstöku umtalsefni en þar væri mikið verk óunnið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Elisabeth Moreno, jafnréttismálaráðherra Frakklands

Forsætisráðherra átti einnig fund í morgun með Elisabeth Moreno, jafnréttismálaráðherra Frakklands. Þar ræddu ráðherrarnir um aðgerðir stjórnvalda á Íslandi gegn kynbundnu ofbeldi, jafnlaunavottun og þátttöku kvenna í atvinnulífi og stjórnmálum.

Fyrr í dag fundaði forsætisráðherra með Robertu Metsola, forseta Evrópuþingsins, þar sem umræðuefnið var hið grafalvarlega ástand í Úkraínu, jafnréttismál og aðgerðir íslenskra stjórnvalda á því sviði.

Þá fundaði forsætisráðherra með Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu, og ræddu þau málefni Úkraínu og öryggismál í Evrópu, orkuskipti og jafnréttismál.

        

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Roberta Moreno, forseti Evrópuþingsins

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Alexander De Croo, forsætisráðherra Belgíu

Erindi forsætisráðherra á viðburði jafnréttisnefndar Evrópuþingsins í Brussel

       

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum