Hoppa yfir valmynd
9. mars 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Frumvarp um rýmkun heimilda lífeyrissjóða til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum í samráðsgátt

Í samráðsgátt stjórnvalda hafa nú verið birt drög að frumvarpi til laga með það meginmarkmið að rýmka heimildir lífeyrissjóða til fjárfestinga í erlendum gjaldmiðlum. Lagt er til að hámark gjaldmiðlaáhættu verði fært úr 50% af heildareignum lífeyrissjóðs í 65% í fimmtán jafn stórum skrefum frá 2024 til 2038. Til þess að draga úr gjaldmiðlaáhættu fyrir sjóðfélaga, einkum þá sem eru komnir nærri lífeyristökualdri, er lagt til að lífeyrissjóðir þurfi að lágmarki að eiga eignir í sama gjaldmiðli og væntar lífeyrisgreiðslur þeirra til næstu þriggja ára.

Þá er í frumvarpinu tillaga um að hámark gjaldeyrisáhættu verði eingöngu bindandi á viðskiptadegi fjárfestingar. Það hefur í för með sér að ef gengisþróun eða verðþróun á mörkuðum leiðir til þess að erlendar eignir lífeyrissjóða fara umfram hámarkið verður sjóðum ekki gert að selja eignir til þess komast niður fyrir hámarkið líkt og nú er. Frekari fjárfestingar sem auka gjaldmiðlaáhættuna verði þó óheimilar meðan fjárfestingar eru umfram hámark. Með þessu móti er stefnt að því að lífeyrissjóðir geti betur nýtt þær heimildir sem þeir hafa til fjárfestinga í eignum í erlendum gjaldmiðlum. Þá eru lagðar til breytingar er varða afleiðuviðskipti lífeyrissjóða sem auka möguleika þeirra til að nýta afleiður til gjaldeyrisvarna.

Loks er í frumvarpinu að finna tillögu að meginreglu um rafræna birtingu yfirlita og upplýsinga frá lífeyrissjóðum en þeir skulu þó afhenda sjóðfélögum sem þess óska sömu gögn á pappírsformi þeim að kostnaðarlausu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum