Hoppa yfir valmynd
15. mars 2022 Dómsmálaráðuneytið

Stafrænar og skilvirkar stjórnsýslustöðvar sýslumanns í heimabyggð

Dómsmálaráðherra hefur hleypt af stokkunum gagngerri endurskoðun á skipulagi sýslumannsembætta landsins meðal annars til að fylgja eftir skýrslu um framtíðarsýn í starfsemi sýslumanna sem ráðuneytið gaf út í mars árið 2021 og til þess að bregðast við skýrslum og úttektum sem gerðar hafa verið á starfsemi og rekstri sýslumannsembættanna undanfarin ár. Markmiðið er að efla núverandi starfsemi þannig að úr verði nútímalegar þjónustueiningar, einskonar stjórnsýslustöðvar ríkis í heimabyggð, sem veita framúrskarandi þjónustu, óháð staðsetningu borgarans eða stjórnsýslustöðvarinnar. Framangreind endurskoðun dómsmálaráðherra hefur jafnframt skýra samsvörun við áherslur í byggðamálum, sem koma meðal annars fram í hvítbók um byggðamál, sem var útgefin af samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu í maí árið 2021.

Fyrirætlanir ráðherra hafa verið kynntar sýslumönnum og áformin tekin til umræðu. Ráðherra kynnti áformin fyrir starfsfólki embættanna fimmtudaginn 10. mars og munu ráðherra og starfsmenn ráðuneytisins heimsækja öll sýslumannsembættin á næstu vikum til að ræða málin nánar og halda vinnufundi með starfsfólki. Þannig er áætlað að áformin verði unnin í nánu samstarfi við sýslumenn og starfsfólk þeirra.Ráðherra hefur lagt áherslu á það, að í stað þess að endurskipuleggja starfsemi hins opinbera í heimabyggð frá grunni sé ætlunin að nýta þann mannauð og þær starfsstöðvar sem þegar eru fyrir hendi á vegum ríkisins um allt land. Er því ekki ætlunin að fækka starfsstöðvum heldur áformar ráðherra heldur að bæta í og gera betur og vonast eftir farsælu samstarfi við sveitarstjórnir um land allt í þeim efnum. Starfsfólk sýslumanna er nú þegar með aðsetur um land allt og býr yfir verðmætri þekkingu og reynslu, og er því rétta fólkið til að takast á við verkefnið.

Í kynningu ráðherra fyrir starfsfólki kom fram að með niðurfellingu lögsagnarumdæma, ríkara samstarfi á milli starfsstöðva undir einni þjónustustofnun og aukinni áherslu á stafræna þjónustu gefist einstakt tækifæri til þess að bæta þjónustuna og byggja upp mismunandi sérhæfingu á hverjum stað, sem þjónar í senn heimabyggð og öllu landinu.Með breyttu skipulagi telur ráðherra einnig hægara um vik að fela starfsstöðvunum ný verkefni hins opinbera sem snúa að þjónustu við almenning og er undirbúningur þess þegar hafinn hjá ráðuneytinu. Hver starfsstöð verði áfram öflugur vinnustaður í heimabyggð til að þjónusta bæði heimamenn og allt landið, ásamt því að málsmeðferðin verður skilvirkari, samræmdari og vandaðri. Þá skapast sveigjanleiki með innleiðingu nútímalegri stjórnsýsluhátta sem auðveldar starfsfólki að vinna verkefni hvar sem er á landinu og eru því tækifæri fyrir hendi að geta boðið starfsfólki upp á störf án staðsetningar í anda opinberrar stefnu þar um.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra
„Stafræn vegferð hins opinbera hefur þegar haft mikil áhrif á almenning sem notendur þjónustunnar. En nú bíða okkar jafnvel enn stærri tækifæri í því að innleiða stafrænt verklag og störf án staðsetningar í flestum ef ekki öllum þáttum opinberrar þjónustu. Sérhæfing á einum stað hefur alla burði til að þjónusta allt landið. Þetta er án efa eitt stærsta og mest spennandi byggðamál sem blasir við ríki og sveitarfélögum. Nú reynir á fólk um allt land, bæði íbúa og sveitarstjórnir að sjá og hagnýta öll tækifærin sem felast í þeim óumflýjanlegu breytingum sem eru að verða á samfélaginu.“

Fyrirhugað er að ljúka almennu samráði og undirbúningsvinnu fyrir næsta haustþing og leggja þá fram frumvarp um breytta högun sýslumannsembætta landsins.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum