Hoppa yfir valmynd
16. mars 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Ræddi jafnrétti kynja, málefni hinsegin fólks og grænan vinnumarkað við norræna jafnréttisráðherra

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra í hópi norrænna jafnréttisráðherra - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, tók í dag þátt í pallborðsumræðum með norrænum jafnréttisráðherrum um jafnrétti kynja, málefni hinsegin fólks og nauðsynleg umskipti yfir í græn störf á vinnumarkaði. Umræðurnar fóru fram í tengslum við þing kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna sem fram fer í New York.

Ræddu ráðherrarnir hversu nauðsynlegt væri að lausnir í loftslagsmálum tæku jafnréttismál inn í myndina og aðgerðir væru metnar með kynjagleraugum. Sögulega hefur vinnumarkaðurinn og menntakerfið á norðurlöndunum verið kynjaskipt, sem hefur áhrif á það hvernig gæði skiptast. Lagði Guðmundur Ingi fram áskorun á þátttakendur að tala ekki eingöngu um karla og konur heldur líka fólk sem skilgreinir sig á annan hátt. Þá lagði ráðherra ríka áherslu á að við kostnaðarmetum aðgerðir og horfum á félagsleg áhrif þeirra, þá þurfi að meta hvaða áhrif inngrip og aðgerðir í loftlagsmálum hafa á kynin, og haga aðgerðum í samræmi við það mat.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Það að skiptast á hugmyndum er kjarninn í norrænni samvinnu. Það var mjög dýrmætt að fá tækifæri til þess að ræða jafnrétti, málefni hinsegin fólks og grænan vinnumarkað við norræna kollega og magnað að finna kraftinn og viljann þegar kemur að þessum málefnum. Þar ætlum við sem fyrr að vinna náið saman og stefna á árangursríkar og spennandi aðgerðir þegar kemur að réttlátum umskiptum.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum