Hoppa yfir valmynd
30. mars 2022 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélögum fækkar um fimm á fyrri hluta ársins

Sveitarfélögum fækkar um fimm á fyrri hluta ársins - myndHaraldur Jónasson / Hari

Sameiningar Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps annars vegar og Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar hins vegar voru samþykkar með miklum meirihluta atkvæða íbúa í íbúakosningum í sveitarfélögunum laugardaginn 26. mars. Með niðurstöðum kosninganna er ljóst að 69 sveitarfélögum á landinu mun fækka um fimm niður í 64 á fyrri hluta ársins 2022.

Helgafellssveit og Svalbarðshreppur eru með fámennustu sveitarfélögum landsins með innan við 100 íbúa hvort sveitarfélag. Við sameininguna verður til sameinað 600 manna sveitarfélag á Norðurlandi eystra og ríflega 1.250 manna sveitarfélag á Snæfellsnesi.

Kosið var um þrennar sameiningar þann 19. febrúar síðastliðinn. Sameiningar Blönduósbæjar og Húnavatnshrepps annars vegar og Skagafjarðar og Akrahrepps hins vegar voru samþykktar. Á hinn bóginn var kosning um sameiningu Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps felld. Sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar gengur í gildi sama dag og sveitarstjórnarkosningar fara fram þann 14. maí næstkomandi. 

Stefna stjórnvalda miðar að því að ekkert sveitarfélag verði með undir 1.000 íbúa eftir sveitarstjórnarkosningar árið 2026. Nú eru í samráðsgátt stjórnvalda leiðbeiningar og rammi að áliti/greinargerð sveitarfélaga með undir 250 íbúa um stöðu sveitarfélaganna og getu þess til að sinna lögbundnum verkefnum. 

Frestur til að skila umsögnum um gögnin rennur út 13. apríl næstkomandi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum