Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Bætt viðbragðsgeta stjórnvalda og atvinnulífs er megináhersla nýrrar aðgerðaráætlunar í netöryggismálum

  - myndHaraldur Jónasson / Hari

Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2023-2027 sem kynnt var í vikunni er rík áhersla lögð á netöryggismál sem nú heyra undir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. Þar kemur fram að unnið sé að aðgerðaráætlun netöryggisstefnu og nú þegar séu nokkrar aðgerðir komnar til framkvæmda. Má þar nefna netöryggisúttekt á útvöldum opinberum stofnunum, gerð þjónustusamnings milli Stjórnarráðsins og netöryggissveitar Fjarskiptastofu og undirbúning netöryggiskeppni Íslands 2022.

Að sögn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra er öryggi net- og upplýsingakerfa grundvöllur þess að hægt verði að nýta til fulls möguleika stafrænna lausna.

„Öflugt netöryggi er ein af lykilforsendum hugvitsdrifinnar verðmætasköpunar og alþjóðlegrar samkeppnishæfni Íslands. Þetta er eitt af þeim forgangsverkefnum sem ég lagði hvað mesta áherslu á þegar ráðuneytið tók til starfa þann 1. febrúar sl. og það er ánægjulegt að sjá að við erum nú þegar komin vel á veg með framkvæmd fyrstu aðgerðanna.“

Aðgerðaráætlun netöryggisstefnu byggir á Netöryggisstefnu Íslands 2022-2037 og er í samræmi við  netöryggislög. Aðgerðir áætlunarinnar verða af ýmsu tagi með áherslu á hæfni notenda og nýtingu þeirra á netöryggistækni annars vegar og hins vegar stuðla að öruggu netumhverfi á Íslandi. Í ljósi netöryggisógna í tengslum við stríðsátökin í Úkraínu, mun sérstök áhersla vera lögð á aðgerðir sem bæta viðbragðsgetu stjórnvalda og atvinnulífs á Íslandi. Við forgangsröðun aðgerða er horft til þess að brýnar aðgerðir og aðgerðir sem hægt er að ljúka á stuttum tíma komist fyrst á dagskrá. Jafnframt er forgangsraðað í þágu aðgerða sem munu hafa hvað mest áhrif á stöðu Íslands í samanburði við aðrar þjóðir.

Fjöldi ráðuneyta og stofnana koma að mótun og framkvæmd aðgerðanna, enda er netöryggi þverfaglegt viðfangsefni sem krefst víðtækrar samvinnu. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið fer með umsýslu og eftirfylgni aðgerðaáætlunarinnar. Þá mun ráðuneytið sjálft bera ábyrgð á mörgum aðgerðum áætlunarinnar og mun leiða framkvæmd ýmissa aðgerða í samstarfi við Fjarskiptastofu.

Gert er ráð fyrir að mótun allra aðgerða áætlunarinnar verði lokið í júní.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum