Hoppa yfir valmynd
29. apríl 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tryggir áfram þjónustu fyrir gerendur ofbeldis

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Andrés Proppé Ragnarsson frá Heimilisfrið.  - mynd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur framlengt samning við Heimilisfrið um sérhæfða sálfræðiþjónustu fyrir fólk sem beitt hefur maka sína ofbeldi. Mikil ásókn hefur verið í þjónustu Heimilisfriðar undanfarin ár og jókst hún enn frekar í heimsfaraldrinum. Þjónustunni er ætlað að draga úr líkum á frekari ofbeldishegðun með því að veita fólki aðstoð við að þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt á við ágreining og erfiðleika í samskiptum.

Heimilisfriður hefur um árabil sérhæft sig í meðferðum fyrir gerendur ofbeldis og er áhersla lögð á að fólk hafi sjálft frumkvæði að því að leita sér aðstoðar, viðurkenni ábyrgð og sé tilbúið til þess að breyta hegðun sinni. Á því eru þó undantekningar eða þegar barnaverndaryfirvöld, félagsþjónusta eða lögregla vísa málum til Heimilisfriðar. Einnig er boðið upp á makaviðtöl og hópmeðferðarviðtöl.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „Starfsemi Heimilisfriðar er gríðarlega mikilvæg og það skiptir miklu máli að í boði sé aðgengileg þjónusta þar sem gerendur ofbeldis geta fengið faglega aðstoð við að vinna í sínum málum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur undanfarin ár verið með samning við Heimilisfrið um sálfræðiþjónustu þannig að hægt sé að tryggja að þessi mikilvæga þjónusta sé aðgengileg öllum sem vilja leita sér aðstoðar.“

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira