Hoppa yfir valmynd
10. maí 2022 Heilbrigðisráðuneytið

​Brjóstamiðstöð Landspítala – þróun og nýsköpun í göngudeildarþjónustu

Brjóstamiðstöð Landspítala er á Eiríksstöðum við Eiríksgötu - myndLandspítali

Einstaklingsmiðuð þjónusta, teymisvinna og nýsköpun eru lykilatriði í þjónustu brjóstamiðstöðvar Landspítala sem tók til starfa fyrir rúmu ári í nýuppgerðu húsnæði á Eiríksstöðum við Eiríksgötu 5 í Reykjavík. Með opnun brjóstamiðstöðvar - göngudeildar var sameinuð á einum stað sérfræðiþjónusta Landspítala vegna brjóstaskimunar og greiningar og meðferðar brjóstameina.

Markmiðið með stofnun brjóstamiðstöðvarinnar var að tryggja notendum samfellda og samþætta þjónustu við greiningu brjóstameina, meðferð og eftirlit. Brjóstamiðstöðin er þannig miðpunktur í þjónustu við sjúklinga sem greinast með brjóstamein, þótt þeir njóti einnig þjónustu á öðrum deildum Landspítala.

Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, segir brjóstamiðstöðina byggja á nútímalegri nálgun við skipulag og veitingu göngudeildarþjónustu. Hún feli í sér fordæmi og fyrirmynd sem byggt verði á við áframhaldandi þróun göngudeildarþjónustu í starfsemi Landspítala.

Grundvallarþáttur við undirbúning og skipulagningu þjónustu brjóstamiðstöðvarinnar var að sameina á einum stað sérfræðinga á sviði krabbameinslækninga, brjóstaskurðlækninga, geislalækninga og lýtalækninga. Auk þessara sérfræðinga starfa þar 9 reynslumiklir hjúkrunarfræðingar og þrír ritarar.

Í meðfylgjandi myndbandi Landspítala um brjóstamiðstöðina er fjallað um þjónustuna sem þar er veitt og sagt frá hagnýtingu og þróun ýmissa tæknilausna sem miða að því að straumlínulaga verkferla, bæta skráningu og upplýsingagjöf milli meðferðaraðila, auðvelda greið og örugg samskipti fagfólks og sjúklinga og aðlaga þjónustuna sem best að þörfum hvers og eins. Rík áhersla er lögð á teymisvinnu sem meðal annars tryggir að sjúklingar geta ávallt leitað til einhvers í teyminu eftir upplýsingum eða ráðgjöf ef þörf krefur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum