Hoppa yfir valmynd
17. maí 2022 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samvinna hins opinbera við einkageirann mikilvægur hluti nýsköpunar

Samvinna hins opinbera við einkageirann mikilvægur hluti nýsköpunar - myndMynd/Haraldur Guðjónsson

Samvinna milli hins opinbera og einkageirans er lykilatriði þegar kemur að nýskapandi lausnum. Þetta kom fram í ávarpi Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra á nýsköpunardegi hins opinbera sem haldinn var í dag.

Bjarni sagði að hið opinbera hefði mikilvægu hlutverki að gegna í þessum efnum, þrátt fyrir að hugmyndir, fyrirtæki og lausnir yrðu helst til úti í samfélaginu. „Hlutverk þess felst ekki aðeins í stuðningi við nýsköpun á einkamarkaði heldur þarf hið opinbera að hagnýta hana sjálft og veita þannig enn betri þjónustu,“ sagði Bjarni.

Hugsa eigi þjónustu hins opinbera upp á nýtt, og við séum raunar vel á veg komin með það.

„Ég hef stundum sagt að hið opinbera ætti að vera nánast eins og snjallsími – aðgengilegur vettvangur fyrir þjónustu, upplýsingar og aðstoð við daglegt líf.“

Sparnaður á tíma og minna kolefnisspor

Ráðherra vék að því að á vegum Stafræns Íslands væri nú unnið að því að gjörbreyta samskiptum við hið opinbera og þjónustu sem áður kallaði á ferðalög og pennastrik væri nú hægt að nálgast með nokkrum smellum í appi, sem sparaði tíma og minnkaði kolefnisspor.

Á nýsköpunardeginum, sem fram fór í Grósku, var fjölbreytt dagskrá. Þemað í ár var græn nýsköpun og erindi sem flutt voru sneru jafnt að nýjum tækifærum í nýsköpun, sem og reynslusögum af vel heppnuðum verkefnum. M.a. var rætt um græn áhrif stafrænnar umbreytingar hjá hinu opinbera, um óstaðbundin störf, fjarlækningar, jarðvarmatengda nýsköpun og margt fleira.

Að deginum stóðu Ríkiskaup, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og umhverfis- og orkumálaráðuneytið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum