Hoppa yfir valmynd
13. júní 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Frumvarp um skipan stjórnar yfir Landspítala orðið að lögum

Landspítali - myndHeilbrigðisráðuneytið

Alþingi hefur samþykkt frumvarp Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem kveður á um skipan stjórnar yfir Landspítala og skipan notendaráðs. Markmið lagasetningarinnar er að styrkja stöðu og hlutverk spítalans sem mikilvægustu heilbrigðisstofnun landsins í samræmi við stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs.

Samkvæmt lögunum mun ráðherra skipa fimm manna stjórn yfir Landspítala til fimm ára í senn. Einnig mun ráðherra skipa tvo áheyrnarfulltrúa úr hópi starfsmanna Landspítala með málfrelsi og tillögurétt, án atkvæðisréttar. Aðkoma fagráðs að stjórninni hefur verið tryggð og sjö manna notendaráð verið skilgreint til að tryggja rödd notenda þjónustunnar. Er það nýmæli og framfaraskref.

Stjórn spítalans í samráði við forstjóra mun marka Landspítala langtímastefnu í samræmi við stefnumörkun ráðherra og hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum. Í stjórninni munu sitja einstaklingar sem hafa þekkingu á rekstri og áætlanagerð, á heilbrigðisþjónustu, vísindarannsóknum á heilbrigðissviði, menntun heilbrigðisstétta og á opinberri stjórnsýslu og reglum stjórnsýsluréttar. Stjórnin mun því styrkja og styðja við faglegan og fjárhagslegan rekstur spítalans.

Nánar um notendaráð

Heilbrigðisráðherra skipar notendaráð sjö fulltrúar notenda samkvæmt tilnefningu frá starfandi sjúklingasamtökum. Forstjórar og stjórn heilbrigðisstofnana, þar sem við á, skulu hafa samráð við notendaráð til að tryggja að sjónarmið notenda séu höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku um atriði er varða hagsmuni sjúklinga innan heilbrigðisstofnana. (Uppfært 14.06.22)

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira