Hoppa yfir valmynd
3. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Dregið verði úr umhverfisáhrifum siglinga með nýrri tækni

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, flytur erindi á ráðstefnunni. - mynd

Alþjóðasiglingadagurinn 29. september var að vanda haldinn hátíðlegur um heim allan.  Í ár er sjónum beint að því með hvaða hætti ný tækni geti dregið úr umhverfisáhrifum siglinga. Af því tilefni var haldin ráðstefna á vegum Siglingaráðs, innviðaráðuneytis, Grænu orkunnar og Samgöngustofu í samstarfi við umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið undir yfirskriftinni „Stolt siglir fleyið mitt- Öruggi og grænar lausnir í siglingum“.  Ráðstefnan var afar vel sótt en hátt í 150 manns hlustuðu á áhugaverð erindi nýsköpunarfyrirtækja sem bjóða lausnir í siglingum.

Ísland hefur sett sér metnaðarfull markmið um öryggi sjófarenda og umhverfisvænni siglingar á öllum sviðum, hvort sem það er í fiskveiðum, millilandasiglingum eða ferðaþjónustu. Það eru margar leiðir til þess að ná árangri í aukinni sjálfbærni í siglingum og þær snúa að fjölmörgum þáttum sem allar miða að því sama; að tryggja öryggi sjófarenda og vernda umhverfi hafsins fyrir komandi kynslóðir. Samkvæmt samgönguáætlun skal öryggi sjófarenda vera í öndvegi og er unnið ötullega að því markmiði. Þá skulu siglingar vera umhverfislega sjálfbærar sem tekur á mörgum þáttum sem snúa að vörnum gegn mengun. Loks eru að leiðarljósi markmið Íslands í loftslagsmálum, m.a. að draga úr losun koldíoxíðs í siglingum með því að hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í haftengdri starfsemi nemi 10% fyrir árið 2030.

Ísland hefur burði til að ná árangri í orkuskiptum á hafi

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis- orku og loftslags setti ráðstefnuna.  Í orðum sínum  fór hann m.a. yfir mikilvægi orkuskipta á sjó sem væru ekki einungis mikilvæg fyrir loftslagsmarkmið heldur einnig efnahagslegt mikilvægi þess að þróa og nýta innlenda orkugjafa sem og þjóðaröryggi þ.e. nauðsyn þess að geta verið sjálfum okkur nóg um orku í viðsjálum heimi.  Hann minnti á mikilvægi þess að vernda hafið sem umhverfi, á mikilvægi endurvinnslu og hringrásarhagkerfis þannig að nýting auðlinda verði sem best.

„Orkuskiptin á landi eru komin vel á veg og ég hef þá trú að Ísland hafi alla burði til þess að ná viðlíka árangri í orkuskiptum á hafi. Áskoranirnar þar eru aðrar og  farsælt samstarf atvinnulífs og stjórnvalda jafnvel enn mikilvægara. Ég hef lagt áherslu á í mínu ráðuneyti að tengja betur við atvinnugeirana og virkja þannig frumkvæði og þekkingu þeirra sem standa næst starfseminni,“ sagði Guðlaugur Þór.

Lausnir sem byggja á endurvinnanlegum efnum

Á ráðstefnunni kynntu fjöldi íslenskra og erlendra aðila nýjar lausnir fyrir siglingar og sjósókn. Þessar lausnir miða að því að draga úr umhverfisáhrifum og/eða auka öryggi sjófarenda þ.m.t. orkuskipti, bætta orkunýtingu, siglingaöryggi og aðrar tæknilausnir. Athygli vakti að flestar þeirra byggja á endurvinnanlegum efnum og  nýta sér hringrásarhagkerfið, sem er afar jákvætt spor.


  • Maria og Óskar frá Sidewind kynna vindmyllugáma. - mynd
  • Gestir á ráðstefnunni Stolt siglir fleyið mitt – Öryggi og grænar lausnir í siglingum. - mynd

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum