Hoppa yfir valmynd
4. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Evrópska kvikmyndaakademían heiðrar Kaffibarinn sem dýrmætan tökustað í evrópskri kvikmyndasögu

Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Hallgrímur Helgason rithöfundur, Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Matthijs Wouter, framkvæmdastjóri Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna. - myndRR

Evrópska kvikmyndaakademían stofnaði nýlega arfleifðardeild sem á að varðveita evrópska kvikmyndasögu. Hugmyndin er að vekja athygli á tökustöðum sem eru táknrænir fyrir evrópska kvikmyndagerð og veita þeim viðurkenningu. Tuttugu og tveir kvikmyndatökustaðir í Evrópu verða í ár heiðraðir og fá nafngiftina, „Treasures of European Film Culture“. Kaffibarinn var valinn á Íslandi fyrir hlutverk sitt í 101 Reykjavík en frumraun Baltasar Kormáks sem leikstjóri hefur hlotið fjöldann allan af verðlaunum á kvikmyndahátíðum víðsvegar um heim.

Á viðburðinum mun Matthijs Wouter framkvæmdastjóri European Film Awards (EFA) bjóða fólk velkomið ásamt því að Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, munu veita aðstandendum kvikmyndarinnar 101 Reykjavík ásamt fulltrúum Kaffibarsins verðlaunaskjöld.

Þessi viðurkenning markar upphaf þess að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin verða haldin hér á landi í Hörpu, 10. desember næstkomandi. Mikill heiður fylgir því að fá að halda hátíðina en annað hvert ár er hún haldin í Berlín en þess á milli í öðrum evrópskum borgum.

„101 Reykjavík er ein af perlum íslenskrar kvikmyndasögu og hróður hennar hefur borist um allan heim. Það er gaman að heiðra Kaffibarinn í dag, hann er ekki síður menningarfyrirbæri á Íslandi. Hann er fyrir löngu orðinn eitt af kennileitum borgarinnar, aðdráttarafl fyrir ferðamenn og ég held nú líka að ansi margir Íslendingar eigi sína eigin Kaffibarssögu,” segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Kvikmyndin 101 Reykjavík þykir einstök aldamótalýsing á Reykjavík, byggð á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar. Sérstök efnistök og óhefðbundin samskipti kynjanna undir dúndrandi tónlist eru talin eiga stóran þátt í velgengni kvikmyndarinnar.

„Kaffibarinn er auðvitað lykilstaður í íslensku nætur- og skemmtanalífi og í raun líka menningarlífi. Það er engin tilviljun að hann hafi verið valinn sem heimahöfn Hlyns í 101 Reykjavík Hallgríms Helgasonar sem varð líklega ein fyrsta íslenska kvikmyndin sem fangaði nýju Reykjavík sem var að verða borg og hina einstöku stemningu sem hér er – allt í frábærum meðförum Baltasars Kormáks og einvalaliðs kvikmyndagerðarfólks og leikara“, segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.

„Það er mikill heiður að Kaffibarinn fái þessa viðurkenningu frá Evrópsku kvikmyndaakademíunni. Þegar kvikmyndin 101 Reykjavík kom út var Kaffibarinn aðalstaðurinn og þar hittumst við Hallgrímur Helgason reglulega. Þetta var heimili að heiman og fastagestir tóku að sér að leika í kvikmyndinni. Það er virkilega gaman að Kaffibarinn skuli enn lifa góðu lífi eftir öll þessi ár. Það felast mikil tækifæri í því að Evrópsku kvikmyndaverðlaunin skulu vera haldin í Reykjavík í ár og megum við búast við mikilli kvikmyndaveislu í desember“, segir Baltasar Kormákur, leikstjóri.

Á meðal tökustaða sem hafa verið heiðraðir má nefna bókabúðina í kvikmyndinni Notting Hill, kaffihúsið Café des Deux Moulins í Amélie, Trevi gosbrunnurinn í Róm sem spilaði stórt hlutverk í La Dolce Vita og kvikmyndahúsið Círculo de Bellas Artes í Madríd sem hefur komið fyrir í kvikmyndum Pedro Almodóvar eins og Konur á barmi taugaáfalls.

Evrópska kvikmyndaakademían leitast við að styðja og tengja saman 4.400 meðlimi sína ásamt því að kynna verk þeirra. Markmiðið er að miðla þekkingu og fræða áhorfendur á öllum aldri um evrópska kvikmyndagerð. Akademían vill sameina alla þá sem una evrópskri kvikmyndagerð og nær það hámarki í nóvember mánuði sem árlega er tileinkaður evrópskri kvikmyndagerð og svo Evrópsku kvikmyndaverðlaununum (EFA) í desember.

Nánari upplýsingar um „Treasures of European Film Culture“ og þá staði sem hafa verið heiðraðir: https://www.europeanfilmacademy.org/activity/treasures-of-film-culture/

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum