Hoppa yfir valmynd
5. október 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Viðbrögð framhaldsskóla við ofbeldi

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur boðað skólastjórnendur á fund um viðbrögð við kynferðisofbeldi í framhaldsskólum. Á fundinum verður farið yfir stöðuna á innleiðingu viðbragðsáætlana og kynningu þeirra í skólunum. Kynnt verður fyrirmynd að viðbragðsáætlun sem skólar geta nýtt þar sem áætlun hefur ekki verið innleidd eða skerpa þarf verklagið. Markmiðið er að bregðast við ákalli um skýrara verklag, tryggja að viðbrögð séu skilvirk og stuðla að öryggi nemenda.

Framhaldsskólar skulu hafa heildstæða stefnu um það hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólastarfi samkvæmt 33. gr. laga um framhaldsskóla. Í fyrra sendi þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra erindi til skóla um mikilvægi þess að innan hvers skóla sé til staðar viðbragðsáætlun til að taka á því þegar upp kemur kynferðislegt eða kynbundið ofbeldi innan skólanna. Margir skólar hafa þegar sett upp viðbragðsáætlun og starfa samkvæmt henni.

Ráðuneytið mun á næstu dögum útbúa fyrirmynd að viðbragðsáætlun sem skólar sem ekki hafa innleitt áætlun eða vilja skerpa verklag sitt geta haft til hliðsjónar við gerð viðbragðsáætlunar. Fundað verður með skólastjórnendum, fulltrúum kennara og nemenda og öðrum sem að málinu koma til að rýna áætlunina og eiga gagnvirkar umræður um helstu álitamál. Mikilvægt er að skólastjórnendur eigi opið samtal um sínar viðbragðsáætlanir innan skólanna til að efla umræðu, aðgerðir og vitundarvakningu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum