Hoppa yfir valmynd
6. október 2022 Matvælaráðuneytið

Álitamál til umfjöllunar á þriðja fundi samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu

Á þriðja fundi samráðsnefndar um sjávarútvegsstefnu kynntu starfshóparnir Samfélag, Aðgengi, Umgengni og Tækifæri hluta þeirrar vinnu sem hóparnir hafa unnið síðan Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra setti af stað verkefnið Auðlindin okkar í júní sl. Hóparnir kynntu m.a. svonefndar kveikjur sem er samheiti yfir þær spurningar og þau álitamál varðandi sjávarútveg sem hóparnir hafa rýnt.

Kveikjurnar eru því ekki niðurstöður hópanna, heldur er þeim ætlað að vera umræðugrundvöllur fyrir alla þá sem láta sig málefni sjávarútvegsins varða. Í samræmi við upplegg Auðlindarinnar okkar er kallað eftir umræðum og viðbrögðum frá sem fjölbreyttustum hópi á komandi mánuðum.

Eftirfarandi kveikjur eru meðal þess sem hóparnir hafa rýnt:

  • Nær fiskveiðistjórnunarkerfið að óbreyttu markmiðum laga um stjórn fiskveiða eða á að stefna að öðrum markmiðum?
  • Hver er þjóðhagslegur ávinningur fiskveiðistjórnarkerfisins?
  • Hefur byggðakvótakerfið og strandveiðikerfið náð þeim markmiðum sem að var stefnt?
  • Eru hvatar til þess að umhverfisspor við nýtingu auðlindarinnar sé lágmarkað?
  • Á að skylda fyrirtæki sem hafa nýtingarheimildir til að skila gögnum sem nýtast til rannsókna og eftirlits til að auka þekkingu í greininni og draga úr óvissu í ákvarðanatöku?
  • Á að sameina helstu lagabálka í ein heildarlög um auðlindir hafsins?
  • Hvernig á að draga úr kolefnisspori, með rafvæðingu smábáta, fækkun í skipaflota, taka upp græna potta eða skattaafslætti ?

Glærusýningu frá fundinum með ítarlegri upplýsingum má nálgast hér.

Einnig greindu starfshóparnir frá þeim hagaðilum sem hóparnir hafa fundað með síðustu mánuði. Nánari upplýsingar hagaðila og starfsemi starfshópanna má finna á audlindinokkar.is

Þá var kynntur samningur matvælaráðuneytisins og Samkeppniseftirlitsins um kortlagningu á stjórnunar- og eignatengslum í sjávarútvegi (sjá frétt) 

Starfshóparnir munu halda áfram að rýna spurningar og kveikjur á komandi mánuðum, gert er ráð fyrir að bráðabirgðaniðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir í desember 2022.

Nánari upplýsingar um verkefnið Auðlindin okkar má finna hér.



Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
14. Líf í vatni
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
9. Nýsköpun og uppbygging
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum