Hoppa yfir valmynd
6. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist verði framlengdar til fimm ára

Frumvarp um áframhaldandi stuðning og endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist er nú í Samráðsgátt stjórnvalda og er hægt að skila athugasemdum til 15. október n.k. 

Markmið laga nr. 110/2016 um endurgreiðslur vegna hljóðritunar er að efla tónlistariðnað á Íslandi með því að veita útgefendum hljóðrita rétt til endurgreiðslu hluta kostnaðar sem fellur til við hljóðritun hér á landi, sambærilegan við þær endurgreiðslur sem kvikmyndagerð nýtur. 

Til þess að tryggja tónlistarlífi Íslands áframhaldandi forsendur til hagvaxtar er með frumvarpinu gert ráð fyrir því að tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar verði framlengdar til fimm ára, en að óbreyttu falla þær úr gildi um áramót. 

Þá er einnig í frumvarpinu að finna minniháttar breytingar í ljósi reynslu síðustu ára af framkvæmd laganna, til dæmis um hverjir geta sótt um og hlotið endurgreiðslur vegna hljóðritunar og að sett verði reglugerð þar sem nánar er skilgreint hvaða kostnaður telst endurgreiðsluhæfur.

Í frumvarpinu er að finna umfjöllun um þróun endurgreiðslna frá gildistöku laganna, þróun á tónlistarútgáfu á Íslandi, og mat á þeim árangri sem hlotist hefur af endurgreiðslukerfin með hliðsjón af upprunalegum markmiðum laganna. Sú umfjöllun bendir til þess að endurgreiðslukerfið hafi haft hvetjandi áhrif á tónlistarútgáfu á Íslandi og ástæða sé til að framlengja gildistíma laganna.

 

Samhliða framlagningu þessa frumvarps er ráðuneytið að vinna að útfærslum sem lúta að því að endurgreiða hluta framleiðslukostnaðar við gerð tónlistarmyndbanda á Íslandi, með svipuðum hætti og gildir um endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar og sjónvarpsefnis.

,,Stjórnvöld hafa skýr markmið um að auka samkeppnishæfni menningar og skapandi greina á Íslandi og auka útflutningstekjur af þeim. Það er mikill meðbyr með íslenskri tónlist og tónlistariðnaði og þar skipta endurgreiðslurnar vegna hljóðritunar á tónlist miklu máli. Fjölmargar aðgerðir eru í farvatninu til að efla tónlistarlífið á Íslandi, til dæmis fyrstu heildstæðu lögin um tónlist, ný tónlistarstefna, ný Tónlistarmiðstöð og aukin framlög í sjóði tónlistar,‘‘ segir Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum