Hoppa yfir valmynd
19. október 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Stuðningur við einkarekna fjölmiðla verði framlengdur

Menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur lagt fram í Samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi sem framlengir gildistíma um stuðning til einkarekinna fjölmiðla til ársins 2025, en að óbreyttu myndi stuðningurinn falla úr gildi um áramót.

 

„Endurskoðun á stuðningi við einkarekna fjölmiðla verður áframhaldið, við stefnum á að leggja fram nýtt frumvarp innan tveggja ára sem festir stuðninginn í sessi. Það er í takt við þá þróun sem er að verða á hinum Norðurlöndunum varðandi stuðning við einkarekna fjölmiðla, en þar fer einnig fram talsverð endurskoðun um þessar mundir. Þannig verður Ísland ekki eftirbátur hinna landanna, sem er mikilvægt framfaraskref fyrir einkarekna fjölmiðla,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Í frumvarpinu eru gerðar nokkrar aðrar breytingar, til að mynda:

  • Lagt er til að umsóknarfrestur um styrk verði 1. október í stað 1. ágúst, auk þess að mælt er fyrir um heimild fyrir nefndina til að afla álits sérfróðra aðila.
  • Lögð er til breyting á hvernig skipað er í úthlutunarnefnd. Breytingunni er ætlað að samræma hvernig skipað er í úthlutunarnefnd og fjölmiðlanefnd, auk þess sem tekið er mið af hvernig sambærileg nefnd er skipuð í Danmörku.
  • Orðalagsbreyting er gerð á markmiðsákvæði laganna, meðal annars með því að mæla fyrir um að fjölmiðlar séu hornsteinn lýðræðis og vísa til þess að stuðningskerfið sé fyrirsjáanlegt.

 

Nánar er fjallað um frumvarpið í Samráðsgátt stjórnvalda en hægt er að skila inn umsögn til 02.11.2022.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum