Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2022 Innviðaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið

Íslensku menntaverðlaunin 2022

Íslensku menntaverðlaunin voru nýlega afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Verðlaunahafar 2022 eru leikskólinn Rauðhóll í Reykjavík, Elísabet Ragnarsdóttir leikskólakennari, þróunarverkefnið Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar og Tækniskólinn fyrir átaksverkefnið #kvennastarf. Hvatningarverðlaunin hlýtur Menntaskóli Borgarfjarðar fyrir framsækna endurskoðun á námskrá.

Markmið verðlaunanna er að efla menntun og vekja athygli samfélagsins á metnaðarfullu og vönduðu skóla- og frístundastarfi með börnum og unglingum. Að auki er veitt hvatning til einstaklings, hóps eða samtaka sem stuðlað hafa að menntaumbótum er þykja skara fram úr.

  • Í flokknum framúrskarandi skólastarf eða menntaumbætur hlaut leikskólinn Rauðhóll í Reykavík verðlaunin fyrir fagmennsku og gæði í leikskólastarfi og öflugt þróunarstarf
  • Í flokknum framúrskarandi kennari hlaut Elísabet Ragnarsdóttir leikskólakennari og aðstoðarleikskólastjóri við leikskólann Heiðarborg í Reykjavík verðlaunin fyrir einstaka fagmennsku við leikskólakennslu.
  • Þróunarverkefnið Átthagafræði í Grunnskóla Snæfellsbæjar hlaut verðlaunin fyrir framúrskarandi þróunarverkefni. Það beinist að því að efla jákvæð og virk tengsl skóla og samfélags, þekkingu nemenda á heimabyggð sinni og auka fjölbreytni í námi.
  • Í flokknum framúrskarandi iðn- eða verkmenntun, sem er nýr flokkur, hlaut Tækniskólinn verðlaunin fyrir átaksverkefnið #kvennastarf sem unnið hefur verið á hans vegum í samvinnu við aðra iðn- og verkmenntaskóla. Það beinist að því að vekja athygli á fjölbreyttum störfum í iðn-, tækni- og verkgreinum og benda á þann kynjamun sem hefur viðgengist í sumum starfsstéttum.
  • Hvatningarverðlaun Íslensku menntaverðlaunanna hlaut að þessu sinni Menntaskóli Borgarfjarðar fyrir framsækna endurskoðun á námskrá með það að leiðarljósi að búa nemendur sem best undir áskoranir í lífi og starfi í nútíð og framtíð.


Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Elísabet Ragnarsdóttir, verðlaunahafi í flokki framúrskarandi kennara, og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands

Að verðlaununum standa embætti forseta Íslands, mennta- og barnamálaráðuneytið, innviðaráðuneytið, Félag um menntarannsóknir, Grunnur – félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, Kennaradeild Háskólans á Akureyri, Kennarasamband Íslands, Listaháskóli Íslands, Menntamálastofnun, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök áhugafólks um skólaþróun, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar og Samtök iðnaðarins. Sjá nánar á vefnum Skólaþróun.is.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum