Hoppa yfir valmynd
10. nóvember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Lilja hitti þingkonu og sendiherra Georgíu

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra átti fund með Eliso Bolkvadze þingkonu og formanni menningarnefndar georgíska þingsins og Nata Menabde sendiherra Georgíu gagnvart Íslandi. Þær eru hér á landi í tengslum við heimsþing kvenleiðtoga sem nú fer fram í Hörpu þar sem um 500 kvenleiðtogar frá yfir 100 löndum taka þátt.

 

Í ár eru þrjátíu ár frá því að Ísland og Georgía tóku upp formlegt stjórnmálasamband. Ræddu þær m.a. stöðu kvenna í stjórnmálum en á georgíska þinginu eru 19% þingmanna konur og núverandi forseti, Salome Zourabichvili, er jafnframt fyrsti kvenforseti landsins. Þá var staða smáríkja til ræðu og svokölluð mjúk áhrif þeirra í gegnum listir og menningu. Eliso Bolkvadze er jafnframt þekkt sem klassískur píanóleikari í heimalandi sínu og var útnefnd sem ein af friðarlistamönnum UNESCO árið 2015. Lilja sagði frá umhverfi og stuðningskerfi lista og menningar á Íslandi og þeirri sýn að Ísland verði miðstöð skapandi greina (e. Creative Hub).

 

„Á fundi okkar Eliso Bolkvadze var gott að fá innsýn listamanns og þingmanns inn í menningarheiminn í Georgíu og deila okkar áherslum fyrir íslenska menningarsókn. Við vorum sammála um það að smáríki geti haft mikil áhrif í gegnum menningarstarf sitt og að það sé mikilvægt að hlúa að því með ráðum og dáðum,” segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum