Hoppa yfir valmynd
14. nóvember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Breytingar á freðhvolfinu ein sýnilegustu merki hlýnunar jarðar

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Takist að halda hlýnun jarðar innan við 1,5 gráðu þá aukast líkur á að koma megi í veg fyrir óafturkræfa bráðnun Grænlandsjökuls og íshellna á Suðurskautslandinu. Þetta kom fram í ávarpi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á viðburði um málefni þriðja pólsins, sem haldinn var í tengslum við Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem nú stendur yfir í Sharm El Sheikh.

Guðlaugur Þór ávarpaði viðburðinn í gegnum streymi, en hann fékk ekki leyfi læknis til að takast á hendur það ferðalag sem þátttaka í ráðstefnunni krefst.

Ráðherra minnti á að málefni þriðja pólsins hefðu verið rædd á þingi Hringborðs Norðurslóða, sem haldið var á Íslandi í síðasta mánuði. Hann sagði margt vera líkt með Norðurskautssvæðinu og „Þriðja pólnum“, eins og háfjallasvæði Asíu er oft nefnt, þar sem Himalaja-fjöll og fleiri fjallgarðar liggja. Jöklar þriðja pólsins væru á undanhaldi vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, eins og jöklar og ís um allan heim. Slíkt hefði mikil áhrif, ekki bara á háfjallasvæðunum heldur ekki síður í Kína og Indlandi og öðrum fjölmennum og þéttbýlum ríkjum sem byggðu vatnsbúskap sinn og landbúnað á ám sem eiga uppruna sinn í háfjöllunum.

Sagði Guðlaugur Þór stóran hluta mannkyns treysta á jökla Himalajafjalla fyrir vatnsbúskap sinn. Bráðnun jökla þar, líkt og breytingar á freðhvolfinu öllu, séu hins vegar ein sýnilegustu merki hlýnunar jarðar og slíkt ætti að skerpa huga jarðarbúa til að takast á við það verkefni að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 15 Líf á landi
Heimsmarkmið Sþ: 13 Verndun jarðarinnar

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum