Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Dr. Yvonne Höller handhafi Hvatningarverðlauna Vísinda- og tækniráðs 2022

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Dr. Yvonne Höller og Katrín Jakobsdóttir. - myndArnaldur Halldórsson

Dr. Yvonne Höller, prófessor við Háskólann á Akureyri, hlýtur Hvatningarverðlaun Vísinda- og tækniráðs í ár en verðlaunin voru afhent á Rannsóknaþingi sem fram fór í gær undir yfirskriftinni Þekking í þágu samfélags: Áhrif rannsókna á Íslandi. Hvatningarverðlaunin eru veitt vísindamanni sem þykir hafa skarað fram úr snemma á ferlinum og skapað væntingar um framlag í vísindastarfi sem treystir stoðir mannlífs á Íslandi. 

Yvonne starfar sem sérfræðingur í taugavísindum með sérstaka áherslu á raflífeðlisfræði mannsheilans. Rannsóknir hennar leitast við að auka þekkingu á einstaklingum með sjúkdóma eða áverka á miðtaugakerfi, s.s. flogaveiki, mænuskaði og heilabilun. Þessi misserin leiðir Yvonne tvö umfangsmikil rannsóknaverkefni á alþjóðavettvangi en hún lætur einnig til sín taka í nærsamfélaginu og leiðir m.a. Umhverfisráð Háskólans á Akureyri. 

Rannsóknasjóður ómissandi fyrir íslenskt vísindasamfélag

Eins og yfirskrift þingsins ber með sér var athyglinni beint að áhrifum rannsókna á Íslandi og var nýútkomið áhrifamat á Rannsóknasjóði fyrir árin 2022-2015 til umræðu en niðurstaða áhrifamatsins er að Rannsóknasjóðir sé ómissandi fyrir íslenskt vísindasamfélag og styrkir úr sjóðnum mikilvægt fyrsta skref við upphaf rannsókna sem eykur í kjölfarið möguleika styrkþega á að sækja erlenda styrki til verkefna. Rannsóknasjóður hefur það hlutverk að styrkja vísindarannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám á Íslandi, bæði á sviði grunnrannsókna eða hagnýtra rannsókna. 

Sviðsljósinu var einnig beint að gagnagrunninum IRIS sem settur var á laggir fyrr á árinu og birtir rannsóknavirkni og samfélagslega dreifingu þekkingar við rannsóknir hjá íslenskum háskólunum og stofnunum sem eiga aðild að kerfinu. IRIS er mikilvægur þáttur í að miðla rannsóknum á Íslandi og gera umfang og áhrif þeirra sýnilegri og miklar vonir eru bundnar við að kerfið verði með tímanum enn öflugri gagnagrunnur um umfang og áhrif rannsókna á Íslandi. Nú þegar hafa yfir 30 þúsund rannsóknaafurðir verið birtar í kerfinu.

„Ein af forsendum þess að frumkvöðlar og þekkingarfyrirtæki hér á landi dragist ekki aftur úr á alþjóðavísu er gott aðgengi að öflugum rannsóknainnviðum, s.s. tækjum, aðstöðu og gagnagrunnum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem setti Rannsóknaþing í opnunarávarpi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum