Hoppa yfir valmynd
28. nóvember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Styrkir verkefni í þágu trans-barna og hinsegin fólks

Heilbrigðisráðuneytið hefur hlotið 4.080.000 krónur úr Framkvæmdasjóði hinsegin málefna sem renna til tveggja afmarkaðra verkefna á Landspítala í þágu trans barna og hinsegin fólks. Annars vegar verður ráðist í rannsókn sem miðar að því að kortleggja þarfir og óskir hinsegin fólks sem leitar eftir heilbrigðisþjónustu transteymis Landspítala. Hins vegar er um að ræða þróunarverkefni á barna- og unglingageðdeild Landspítala (BUGL) sem felst í því að undirbúa og koma á fót fræðsluhópi fyrir foreldra trans barna sem eru í þjónustu hjá transteymi BUGL.

Framkvæmdasjóður hinsegin málefna starfar á grundvelli aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks til ársins 2025 og er á forræði forsætisráðuneytisins. Sjóðurinn fylgir eftir verkefnum úr þingsályktun um aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks svo nýta megi niðurstöður, reynslu og þekkingu sem úr þeim fæst. Markmið þessara tveggja verkefna sem verða styrkt er að tryggja viðeigandi og fordómalausa heilbrigðisþjónustu fyrir trans fólk. 

Kortlagning á þjónustu við hinsegin fólk

Verkefnið felur í sér tímabundna ráðningu meistaranema í heilbrigðisvísindum sem mun vinna að því að kortleggja þarfir og óskir hinsegin fólks sem leitar eftir heilbrigðisþjónustu transteymis Landspítala og hve vel þjónustan mætir þörfum þess. Undanfarin ár hefur orðin mikil fjölgun þeirra sem leita eftir þjónustu teymisins. Tilfinning meðferðaraðila er sú að fjölbreytileiki og þjónustuþarfir hópsins hafi breyst á undanförnum árum. Því sé sérstaklega mikilvægt að kortleggja þarfir hans og vinna á markvissan hátt með þau gögn sem fyrir liggja til að varpa ljósi á þróunina. Styrkur til verkefnisins nemur 2.000.000 króna. Mótframlag geðþjónustu Landspítala felst í að veita hlutaðeigandi reglubundna handleiðslu. 

Fræðsluhópur fyrir foreldra trans barna

Transteymi BUGL mun undirbúa og koma á fót fræðsluhópi fyrir foreldra trans barna sem eru í þjónustu teymisins. Fyrir liggur að eftirspurn og áhugi er meðal foreldra á slíkum stuðningi. Fyrirliggjandi erlent námsefni verður þýtt og staðfært og útbúið fræðsluefni sem nýtist á námskeiðum fyrir foreldra. Námskeiðið verður skipulagt að fyrirmynd foreldranámskeiðs sem þegar er haldið reglulega fyrir foreldra barna með einhverfu í þjónustu hjá BUGL. Styrkur til verkefnisins nemur 2.080.000 króna.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum