Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Nauðsynlegt að stöðva plastmengun í hafi

Inger Andersen, framkvæmdastýra UNEP, ávarpar þingið. - myndHugi Ólafsson

Ísland lýsir yfir ánægju með að viðræður um gerð nýs alþjóðasamnings um plast og plastmengun eru hafnar og hvetur til þess að samningurinn verði metnaðarfullur og að hann verði til þess að stöðva plastmengun í hafi. Þetta kom fram í ávarpi Íslands á fyrsta fundi samninganefndar um plastmengun, sem nú stendur yfir í Punta del Este í Úrúgvæ.

Umboð til samningaviðræðna var samþykkt á 5. Umhverfisþingi Sameinuðu þjóðanna í febrúar á þessu ári. Mörg ríki,þar á meðal Ísland, höfðu þá hvatt til gerðar alþjóðasamnings til að taka á plastmengun, ekki síst í höfunum. Samþykktin gaf ríkjum víðtækt umboð til viðræðna um plast og plastmengun, sem nær til alls lífsferils plasts, allt frá framleiðslu til endurvinnslu og förgunar. Stefnt er að því að ljúka viðræðum fyrir árslok 2024, með samþykkt lagalega bindandi alþjóðasamnings.

Í ávarpi Íslands á samningafundinum kom fram að Ísland hafi áhyggjur af plastmengun ekki síst vegna áhrifa hennar á lífríki hafsins. Plastrusl og örplast finnist m.a. á Norðurslóðum, víðs fjarri uppsprettum vandans. Það sýndi að plastmengun væri hnattrænt vandamál, sem kallaði á hnattrænar lausnir. Ísland vilji metnaðarfullan alþjóðlegan samning til að stemma stigu við plastmengun. Það sé best gert með því að vinna samkvæmt hugsun hringrásarhagkerfis og taka á öllum lífsferli plasts, frá bættum framleiðsluháttum til úrgangsminnkunar og ábyrgrar meðferðar plastúrgangs. Nauðsynlegt sé að vinna í samningaferlinu með félagasamtökum og atvinnulífinu.

Ísland tók plastmengun upp á vettvangi Norðurskautsráðsins í formennskutíð sinni í ráðinu á árunum 2019-2021. Á alþjóðlegri vísindaráðstefnu árið 2021 kom fram að plastrusl og örplast finnst víða á Norðurslóðum, þar á meðal í sjófuglum og sjávarspendýrum. Á ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í maí 2021 var samþykkt vöktunaráætlun um plast í hafi á Norðurslóðum.

Ísland í hópi ríkja sem vinna að alþjóðasamkomulagi gegn plastmengun

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti í síðustu viku afstöðu Íslands í viðræðunum fyrir ríkisstjórn, ásamt utanríkisráðherra. Þar kom m.a. fram að Ísland hefur gengið í hóp ríkja sem vilja vinna að metnaðarfullu alþjóðasamkomulagi gegn plastmengun.

„Það er ánægjulegt að þessar viðræður um plastmengun eru nú formlega hafnar. Plastmengun er ekki síst áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga vegna mögulegra áhrifa hennar á lífríki hafsins og sjávarfang. Ísland hefur viljað vera í fylkingarbrjósti í baráttu gegn mengun hafsins og það á við hér. Við tókum þetta mál upp í formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu og munum fylgja því eftir í þessum viðræðum. Markmiðið er að skrúfa fyrir streymi plastúrgangs í umhverfið og heimshöfin,“ sagði Guðlaugur Þór.

  • Nauðsynlegt að stöðva plastmengun í hafi - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Heimsmarkmið Sþ: 14 Líf í vatni
Heimsmarkmið Sþ: 12 Ábyrg neysla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum