Hoppa yfir valmynd
1. desember 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

59 umsóknir bárust um styrki til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðistækni og -þjónustu

Alls bárust 59 umsóknir í Fléttuna, styrki til innleiðingar nýsköpunar í heilbrigðistækni og -þjónustu. Opnað var fyrir umsóknir í september og umsóknarfrestur rann út 31. október sl. Styrkjum úr Fléttunni er úthlutað til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins.

„Ég fagna miklum áhuga á Fléttunni. Fjöldi umsókna sýnir að margt spennandi er að gerast í nýsköpun í heilbrigðismálum og að það sé vilji til að innleiða hana í heilbrigðiskerfinu. Ég vonast til þess að nýsköpun og stafrænar lausnir muni á sama tíma bæta þjónustuna og gera hana hagkvæmari,” segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. ,,Nýsköpun er nauðsynleg í ríkisrekstri til að bæta gæði með hagkvæmum hætti.” 

Styrkveitingin er háð því skilyrði að nýsköpunarfyrirtækin sem sækja um styrk eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu sem skuldbinda sig til að innleiða þá nýsköpun sem sótt er um styrki til. Alls taka 23 heilbrigðisstofnanir um land allt þátt í þeim 59 verkefnum sem sótt er um styrki til, en lögð er sérstök áhersla á stuðning við samstarf hins opinbera og einkaaðila. 

60 m.kr. til úthlutunar 

Ríkisstjórn Íslands samþykkti á fyrri hluta árs 2022 að veita 750 m.kr. í sértækar aðgerðir til að mæta félags- og heilsufarslegum afleiðingum heimsfaraldurs. Þar af var háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu úthlutað 60 m.kr. sem ráðherra ákvað að ráðstafa til að tryggja innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu í formi styrkja, með það að markmiði að auka skilvirkni og bæta þjónustu.  

Alls nema styrkbeiðnir 521 m.kr. en hver styrkur getur numið allt að 10 m.kr. og er þeim úthlutað til verkefna til eins árs í senn. Sambærileg úthlutun fer einnig fram á næsta ári. Fagráð vinnur nú að mati umsókna og stefnt er að tilkynnt verði um úthlutun styrkja um miðjan desember.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum