Hoppa yfir valmynd
8. desember 2022 Innviðaráðuneytið

Minni tafir í Mosfellsbæ – Vesturlandsvegur vígður

Ráðherra ásamt skæraberum; Þórhildi og Dagbjörtu - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra vígði í dag formlega Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ. Vígðir voru tveir áfangar, tæpir 2 kílómetrar frá Skarhólabraut að Reykjavegi. Framkvæmdir á Vesturlandsvegi eru hluti af verkefnum samgöngusáttmála ríkisins og sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem gerður var í september 2019. Markmið framkvæmdanna var að bæta afköst, koma í veg fyrir umferðatafir og auka umferðaröryggi.

Sigurður Ingi sagði við opnunina að vígslan markaði ekki eingöngu tímamót fyrir Mosfellinga heldur landsmenn alla. Þá nefndi hann einnig að umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ hefði aukist um 30% frá árinu 2011 til ársins 2021. „Umferð mun halda áfram að aukast, það bendir allt til þess. Þá er gott að Sundabraut sé komin á rekspöl, sem mun létta á gangverkinu á höfuðborgarsvæðinu“, sagði Sigurður Ingi.

Verkið skiptist í tvo áfanga og hófust framkvæmdir við þann fyrri vorið 2020. Vinna við síðari áfanga hófst í desember 2020. Verktaki beggja áfanga var Loftorka Reykjavík ehf. Ráðist var í umtalsvert meiri hljóðvarnir en ráð var fyrir gert í upphafi og skýrir það að langmestu leyti að framkvæmdin varð dýrari en til stóð. Endanlegur kostnaður nemur um einum milljarði króna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum