Hoppa yfir valmynd
16. desember 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Þingsályktun um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum

Birt hafa verið til umsagnar drög að tillögu Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til næstu fimm ára. Aðgerðaáætlunin byggist á ályktun Alþingis um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem þingið samþykkti í júní síðastliðnum. Í áætluninni er megináhersla lögð á forvarnir og snemmtæk úrræði, heildræna, samþætta og notendamiðaða þjónustu, notendasamráð og nýsköpun með bætt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu um allt land að leiðarljósi. Umsagnarfrestur er til 12. janúar næstkomandi.

Willum segir það stóran áfanga að geta nú kynnt drög að aðgerðaáætlun fyrir þessa mikilvægu þjónustu: „Áherslur til framtíðar í geðheilbrigðismálum eiga að snúast um jafnan og greiðan aðgang að einfaldri, skilvirkri og notendamiðaðri geðheilbrigðisþjónustu. Aðgerðaáætlunin snýst einmitt um þetta og þetta er heillaskref í rétta átt.“ segir ráðherra.

Víðtækt samráð hefur farið fram við mótun stefnu og aðgerðaáætlunar í geðheilbrigðismálum, eins og rakið er í meðfylgjandi drögum að þingsályktun sem hér eru birt til umsagnar. Drögin er unnin af samráðshópi sem heilbrigðisráðherra skipaði til verkefnisins undir forystu Páls Matthíassonar. 

Skilgreind framtíðarsýn, markmið og aðgerðir

Í aðgerðaáætluninni er dregin upp framtíðarsýn fyrir geðheilbrigðisþjónustu við landsmenn til ársins 2030 sem kristallast í eftirfarandi setningu: „Með því að einfalda og gera geðheilbrigðisþjónustuna skilvirka og notendamiðaða, auka aðgengi og nýsköpun og byggja á bestu viðurkenndu þekkingu bætum við geðheilsu Íslendinga.“  Á þessum grunni eru skilgreind fjögur meginmarkmið um bætta geðheilbrigðisþjónustu. Aðgerðirnar sem lagt er til að verði ráðist í byggja á þessum meginmarkmiðum og eiga saman að stuðla að því að framtíðarsýnin verði að veruleika. 

Meginmarkmið aðgerðaáætlunarinnar:

  1. Geðrækt, forvarnir og snemmtæk úrræði verði grundvöllur geðheilbrigðis einstaklinga.
  2. Heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggð á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð, hæfingu og endurhæfingu. Þjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi við þjónustuveitendur í velferðarþjónustu.
  3. Notendasamráð og notendamiðuð þjónusta verði á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu.
  4. Nýsköpun, vísindi og þróun leiði til betri geðheilbrigðisþjónustu og bætts aðgengis.

Við val á aðgerðum var haft að leiðarljósi að þær væru skýrar, vel valdar, raunhæfar í framkvæmd og líklegar til að skila árangri. Sérstaklega er þar hugað að snemmtækum úrræðum. Einnig eru lagðar til skýringar á helstu leiðum notenda í gegnum kerfið með áherslu á að fækka gráum svæðum við veitingu þjónustu. Einnig er áhersla lögð á hvernig best megi uppfæra, bæta og fá stuðning við aðgerðaáætlunina ár frá ári með aðkomu breiðs hóps haghafa.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum