Hoppa yfir valmynd
19. desember 2022 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra á leiðtogafundi JEF-ríkjanna í Riga

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í fundi leiðtoga þátttökuríkja í Sameiginlegu viðbragðssveitinni (e. Joint Expeditonary Force, JEF) í Riga í Lettlandi. Þetta er í annað skiptið sem leiðtogarnir koma saman frá því að til JEF-samstarfsins var stofnað en fyrra skiptið var í London í mars sl.

Leiðtogarnir ræddu stöðuna í Úkraínu og áframhaldandi stuðning aðildarríkja JEF við Úkraínumenn en Volodomyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundarbúnað. Önnur helstu umræðuefni fundarins voru horfur í öryggismálum í Norður-Evrópu, framtíð JEF-samstarfsins og hvernig ríkin geti í sameiningu mætt nýjum öryggisáskorunum, s.s. hvað varðar netógnir og vernd mikilvægra innviða.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ítrekaði stuðning Íslands við Úkraínu og greindi frá áframhaldandi framlagi til mannúðarmála og annars stuðnings en í síðustu viku sendu íslensk stjórnvöld og íslenskur almenningur níu tonn af vetrarfatnaði og búnaði til Úkraínu. 

Í sameiginlegri yfirlýsingu fundarins heita leiðtogarnir enn frekari stuðningi við Úkraínu eins lengi og þarf í baráttunni gegn Rússum. Er þar um að ræða pólitískan, hernaðarlegan, mannúðar- og efnahagslegan stuðning og áframhaldandi móttöku flóttafólks frá Úkraínu. Þá fordæma leiðtogarnir árásir Rússa á mikilvæga samfélagslega innviði í Úkraínu og aðra stríðsglæpi þeirra. Þá er í yfirlýsingunni fjallað um aukið samstarf JEF-ríkjanna á sviði netöryggis og áhrif aðildar Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu á öryggismál í Norður-Evrópu.

Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fund með Krišjānis Kariņš, forsætisráðherra Lettlands. Ráðherrarnir ræddu stöðu öryggis- og varnarmála í Norður-Evrópu og samskipti landanna en alls eru um 2.200 Lettar búsettir á Íslandi.

JEF er samstarfsvettvangur í öryggis- og varnarmálum þar sem Norðurlöndin eiga aðild, Eystrasaltsríkin, Holland og Bretland, sem leiðir samstarfið.

Yfirlýsing leiðtogafundar JEF í Riga 19. desember 2022 (á ensku)

  • Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Krišjānis Kariņš, forsætisráðherra Lettlands. - mynd
  • Forsætisráðherra á leiðtogafundi JEF-ríkjanna í Riga - mynd úr myndasafni númer 2

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum