Hoppa yfir valmynd
20. desember 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Undirritun samnings um Heimagistingarvakt

Þann 15. desember undirritaði menningar- og viðskiptaráðuneytið samning við embætti Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að framlengja átaksverkefni sem rekið hefur verið sl. ár undir yfirskriftinni „Heimagistingarvakt“. Samkvæmt lögum 85/2007 hefur Sýslumaður eftirlit með skráningarskyldri gististarfsemi sem og annarri rekstrarleyfisskyldri gististarfsemi. Með samningnum felur menningar- og viðskiptaráðuneytið Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu að halda uppi virku og öflugu eftirliti með skráningarskyldri gististarfsemi líkt og samkvæmt fyrri samningum aðila, sem og að annast ákvarðanir vegna brota á reglum um leyfisskylda gististarfsemi. Með framlengingu samningsins, og fjármögnun frá ráðuneytinu sem nemur 50 m.kr., er tryggt að heimagistingarvaktin verður rekin áfram árið 2023.

Lilja Alfreðsdóttir, menningar og viðskiptaráðherra:
„Endurkoma ferðaþjónustu eftir COVID hefur gengið vonum framar og mikill jákvæður uppgangur á sér nú stað innan greinarinnar. Því er mikilvægt að við séum í stakk búin til að fylgja þeirri þróun. Heimagistingarvaktin hefur stuðlað að traustu og skilvirku eftirliti með heimagistingu og aukið yfirsýn stjórnvalda yfir raunverulegt umfang hennar. Að sama skapi hefur hún tryggt rétt skattskil einstaklinga og að lögaðilar sem stunda gististarfsemi afli sér rekstrarleyfis og fari þannig að gildandi lögum.“

Skráning heimagistingar fer fram með rafrænum hætti á www.heimagisting.is.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum