Hoppa yfir valmynd
6. janúar 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fléttan: Nordverse Medical Solutions innleiðir öruggari meðferðir ávanabindandi lyfja

Nordverse Medical Solutions (NMS), í samstarfi við Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, hlýtur styrk að upphæð 4 m.kr. Verkefnið snýr að innleiðingu stafræns meðferðarkerfis í heilsugæslu til að tryggja sem öruggustu meðferð ópíóíða og benzodiazepina, auka þjónustu við skjólstæðinga og samhliða því auka skilvirkni og tímasparnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

NMS hefur síðustu ár unnið að þróun hugbúnaðarlausnar til að bjóða upp á öruggari og skilvirkari meðferðir með ávanabindandi lyfjum, en fyrirtækinu er stýrt af Kjartani Þórssyni sem er einn af stofnendum NMS, læknir og frumkvöðull. Afurð þessarar þróunarvinnu, sem fengið hefur nafnið Prescriby, hefur frá árinu 2019 verið notuð af heilbrigðisstarfsfólki hér á landi, heilbrigðiskerfinu að kostnaðarlausu.

Nordverse Medical Solutions hyggst innleiða Prescriby kerfið á heilsugæslum og rannsaka áhrif þess á heilsufar og rekstrarhagkvæmni. Kerfið gerir heilbrigðisstarfsfólki kleift að veita skjólstæðingum öruggari meðferðir og eftirfylgni með ávanabindandi lyfjum. Markmið innleiðingar Prescriby kerfisins er að lágmarka hættu sem fylgir notkun ávanabindandi lyfja, fækka langtímanotendum slíkra lyfja, auka skilvirkni heilbrigðisstofnana og lækka kostnað sjúkratrygginga sem og heilbrigðisstofnana. Kerfið hefur verið þróað í nánu samráði við skjólstæðinga heilbrigðisstofnana, heilbrigðisstarfsfólk og stjórnendur, með það að markmiði að innleiðing og notkun þess sé bæði skilvirk og falli vel að núverandi verklagi hjá heilbrigðisstofnunum. 

Átta verkefnum hefur verið boðið að ganga til samninga um styrki úr Fléttunni. Fléttan eru styrkir sem veittir eru til nýsköpunarfyrirtækja sem skapað hafa áhugaverðar lausnir til að bæta þjónustu við sjúklinga, stytta biðlista og auka skilvirkni kerfisins almennt. Áhersla var lögð á að úthluta styrkjum sem styðja við innleiðingu nýsköpunar í heilbrigðistækni, -vörum og -þjónustu. Styrkveiting er háð því skilyrði að umsækjendur eigi í nánu samstarfi við stofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu. 

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið kynnir verkefnin átta sem hlotið hafa styrk úr Fléttunni á vef sínum næstu daga.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum