Hoppa yfir valmynd
10. febrúar 2023 Matvælaráðuneytið

Frumvarp til laga um opinbert eftirlit Matvælastofnunnar lagt fram

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra. - myndSigurjón Ragnar

Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, hefur lagt fram frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum sem varða opinbert eftirlit Matvælastofnunnar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að breyta gjaldtökuheimildum í fimm lagabálkum sem falla undir verksvið Matvælastofnunar ásamt því að bæta við gjaldtökuheimildum í tvo lagabálka þar sem þær skortir.

Matvælaráðherra lagði áherslu á mikilvægi málsins, Matvælastofnun sinni ákaflega víðfeðmum og mikilvægum verkefnum og þjónustu, bæði við samfélagið og atvinnulífið.
Eins og kom fram í nýlegri úttekt á stjórnsýslu fiskeldis Ríkisendurskoðunar þarf gjaldskrá Matvælastofnunar að endurspegla raunkostnað. Markmið frumvarps er að tryggja að svo verði ásamt einfaldari og gagnsærri uppsetningu gjaldskrár en nú er.

Helstu atriði frumvarpsins

  • Lagt er til að gjaldtökuákvæðum verði breytt í lögum um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum í plöntum. Einnig í lögum um fiskeldi og lögum um velferð dýra, þannig að þar séu taldir upp þeir kostnaðarþættir sem skuli standa straum af kostnaði við þjónustuna eða vegna eftirlitsverkefna sem Matvælastofnun sinnir.

  • Þá er lagt til að bætt verði ákveðnum sjónarmiðum við gjaldtökuheimild sem fyrir er í lögum um innflutning dýra, og að heimilt verði að líta til þeirra sjónarmiða við gerð gjaldskrár.

  • Lagt er til að gjaldtökuheimildum verði bætt við lög um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Einnig um lög um útflutning hrossa, en Matvælastofnun annast ýmis verkefni á grundvelli þessara laga og hefur hingað til ekki getað innheimt raunkostnað vegna þeirra verkefna. Að lokum eru lagðar til smávægilegar orðalagsbreytingar á einu ákvæði í lögum um skeldýrarækt.

„Aukin meðvitund er í samfélaginu um mikilvægi dýravelferðar sem er af hinu góða“ sagði matvælaráðherra. „Samhliða því hafa þær aukist kröfur og væntingar sem gerðar eru til Matvælastofnunar um hlutverk og skyldur. Þessu frumvarpi er ætlað í senn að styrkja stofnunina í sínu starfi og bæta dýravelferð í landinu“.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum