Hoppa yfir valmynd
24. mars 2023

Framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans

Að þessu sinni er fjallað um:

  • framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans
  • 30 ára afmæli innri markaðarins og markmið ESB um aukna samkeppnishæfni á komandi árum
  • fund leiðtogaráðs ESB
  • fund umhverfisráðherra ESB og umræður um fráveitutilskipun o.fl.
  • tilskipun um grænar umhverfisfullyrðingar
  • tilskipun um viðgerðir á vörum
  • stefnumótun á sviði siglingaöryggis
  • skráningu afurðaheitisins „íslenskt lambakjöt“
  • fund sameiginlegu þingmannanefndar Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og umræður um flugmálið
  • heimsókn ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis til Brussel

Næsti útgáfudagur Brussel-vaktarinnar er áætlaður 21. apríl nk.

 

Framfylgd framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans

Framkvæmdastjórn ESB hefur að undanförnu unnið hörðum höndum að framgangi framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans sem kynnt var með orðsendingu 1. febrúar sl. Eins og nánar er gert grein fyrir í Vaktinni 10. febrúar sl. er áætlunin í grófum dráttum byggð á fjórum meginstoðum, þ.e. (1) einföldun regluverks, (2) greiðara aðgengi að fjármögnun, (3) færnisátaki og (4) frjálsum og sanngjörnum viðskiptum og öruggum aðfangakeðjum.

Framgangur náðist er varðar þriðju stoðina þegar tekin var ákvörðun 7. mars sl. um verkefnið Evrópska færniárið (e. European Year of Skills), sbr. umfjöllun í Vaktinni 10. febrúar og 10. mars sl.

Er kemur að annarri stoðinni þá voru veigamikil skref stigin 9. mars sl. þegar ákveðið var að rýmka tímabundið reglur um ríkisaðstoð á sviðum sem teljast mikilvæg vegna umskiptanna yfir í kolefnishlutlaust hagkerfi. Samhliða voru gerðar breytingar á reglugerð framkvæmdastjórnarinnar sem veitir undanþágur frá tilkynningarskyldu vegna ríkisaðstoðar (e. General Block Exemption), sbr. einnig nánari umfjöllun í Vaktinni 10. mars sl.

Tillaga að reglugerð um kolefnishlutlausan tækniiðnað (e. Net-Zero Industry Act) fellur undir fyrstu stoðina og var hún lögð fram 16. mars sl. Markmið og tilgangur reglugerðarinnar er að ramma inn ráðstafanir sem ætlað er að styðja við uppbyggingu á tækniiðnaði í ESB á sviði grænnar orku og orkuskipta. Reglugerðinni er þannig ætlað að auka viðnámsþol og samkeppnishæfni slíks iðnaðar í ESB. Markmiðið er að framleiðslugeta græns tækniiðnaðar innan ESB geti mætt a.m.k. 40% af þörfum innri markaðarins fyrir árið 2030. Miðar reglugerðin að því að auka fyrirsjáanleika, hraða leyfisveitingum, stuðla að nýsköpun og einfalda regluverk er varðar kolefnishlutlausan tækniiðnað. Með þessu móti er ætlunin að hvetja til fjárfestinga í allri virðiskeðju græns tækniiðnaðar, svo sem á sviði sólar- og vindorku, nýtingar sjávarfalla, jarðvarmavirkjana, rafhlöðugerðar, varmadæluframleiðslu, vetnisframleiðslu, rafeldsneytisframleiðslu og hvers kyns framleiðslu endurnýjanlegra orkugjafa en einnig m.a. við nýtingu nýrrar hátækni til framleiðslu á kjarnorku sem lágmarkar myndun úrgangs við framleiðsluna.

Í því skyni að lágmarka reglubyrði og einfalda kerfið er m.a. kveðið á um svonefnt „one stop shop“ fyrirkomulag. Skulu aðildarríki hvert fyrir sig fela einu bæru stjórnvaldi ábyrgð á öllu utanumhaldi, framkvæmd og upplýsingagjöf um leyfisveitingar vegna verkefna tengdum kolefnishlutlausum tækniiðnaði sem falla undir gildissvið reglugerðarinnar. Skal viðkomandi stjórnvald gegna ráðgjafarhlutverki um hvernig einfalda megi stjórnsýslu á þessu sviði og tryggja að framkvæmdaraðilar þurfi eingöngu að eiga samskipti við einn opinberan aðila í tengslum við leyfisveitingar.

Endurskoðun reglna um raforkumarkað ESB fellur einnig undir fyrstu stoðina um einföldun regluverks og hefur framkvæmdastjórn ESB nú birt tvær tillögur um endurskoðun reglna á því sviði. Hafa tillögurnar jafnframt verið birtar í samráðsgátt ESB, sjá hér og hér, og er umsagnarfrestur til 18. maí nk.

Tillaga að reglugerð um mikilvæg hráefni (e. Critical Raw Materials Act) fellur undir fjórðu stoðina og var hún lögð fram samhliða framangreindri tillögu að reglugerð um kolefnishlutlausan tækniiðnað. Markmið tillögunnar er að tryggja framboð og aðgang að mikilvægum hrávörum innan ESB en nægt framboð ýmissa mikilvægra hráefna er ómissandi ekki bara fyrir framgang framkvæmdaáætlunar Græna sáttmálans heldur einnig stafrænu umskiptin, geimáætlun ESB, varnarmál og svo mætti lengi telja. ESB er nú mjög háð innflutningi á ýmsum mikilvægum hráefnum og í sumum tilvikum hafa birgjar í einstökum ríkjum hálfgerða einokunarstöðu. Þannig er markmið reglugerðarinnar jafnframt að draga úr þeirri áhættu sem getur fylgt því að vera háður tilteknum birgjum að þessu leyti með því að auka eigin framleiðslu mikilvægra hráefna og endurvinnslu slíkra efna og auka fjölbreytni í aðfangakeðjum. Til að ná þessu fram á að nýta styrkleika innri markaðarins og alþjóðlegt samstarf, sbr. meðal annars áform um að koma á fót vettvangi samstarfsríkja á sviði mikilvægra hráefnaviðskipta (e. Critical Raw Materials Club) og eru töluleg markmið sett fram í þeim efnum. Þá er reglugerðinni ætlað að styðja við nýsköpun og rannsóknir á þessu sviði. Í viðaukum I og II með tillögunni eru þær hráefnategundir sem teljast mikilvægar taldar upp og skilgreindar. Reglugerðartillögunni fylgir orðsending frá framkvæmdastjórninni þar sem nánar er gerð grein fyrir stefnumörkun á sviði mikilvægra hráefna.

Margt fleira er í bígerð er varðar fjórðu stoðina og ber þar hæst samtal ráðamanna í ESB og Bandaríkjunum um aukið samstarf, sbr. m.a. sameiginlega yfirlýsingu forseta Bandaríkjanna og forseta framkvæmdastjórnar ESB frá 10. mars sl. sem birt var eftir fund þeirra sama dag í Washington.

Samhliða framangreindu kynnti framkvæmdastjórn ESB hugmyndir um stofnun svonefnds Vetnisbanka Evrópu í formi orðsendingar til Evrópuþingsins, ráðherraráðs ESB, efnahags- og félagsmálanefndar ESB og svæðanefndarinnar. Er orðsendingunni m.a. ætlað að senda út skýr skilaboð um að ESB leggi áherslu á aukna vetnisframleiðslu og þróun á því sviði. Er gert ráð fyrir að fyrstu styrkir til slíkrar framleiðslu verði boðnir út á komandi hausti úr nýsköpunarsjóði ESB á sviði loftlagsmála (e. Innovation Fund) þar sem valin framleiðsluverkefni geti fengið framleiðslustyrk fyrir hvert framleitt kíló af vetni í allt að 10 ár.

30 ára afmæli innri markaðarins og markmið ESB um aukna samkeppnishæfni á komandi árum

Framkvæmdastjórn ESB birti í síðustu viku tvær orðsendingar þar sem 30 ára afmæli innri markaðarins er fagnað og litið yfir farinn veg og framtíðarhorfur metnar. Kemur fram í orðsendingunum að innri markaðurinn, sem nær til á fimmta hundrað milljóna manna, þar sem um 23 milljónir fyrirtækja eru starfrækt og þar sem af 15% af vergri heimsframleiðslu á sér stað, sé án nokkurs vafa drifkraftur efnahags innan aðildarríkja ESB og að ávinningurinn af stofnun hans seint á síðustu öld verði vart metinn til fjár. 

Lögð er áhersla á mikilvægi þess að áfram verði unnið að því að draga úr viðskiptahindrunum og samþjöppun á markaðinum enda sé það nauðsynlegur þáttur til að viðhalda og efla samkeppnishæfni markaðarins til lengri tíma. Fram kemur að alþjóðaviðskiptakerfið sé nú á krossgötum og að vinna þurfi markvisst að því að tryggja að Evrópa verði áfram aðlaðandi staður fyrir fyrirtæki og þar spili græn og stafræn umskipti höfuðmáli. Þannig þurfi að aðlaga innri markaðinn að breytingum sem eru að verða. Í því sambandi ítrekar framkvæmdastjórnin mikilvægi þess að gildandi reglum sé framfylgt og að dregið sé úr innleiðingarhalla á ESB-reglum í aðildarríkjunum, um leið og unnið sé markvisst að því að fjarlægja hindranir á vettvangi aðildarríkjanna, einkum hindrunum er lúta að þjónustu yfir landamæri, verslun, byggingarstarfsemi, ferðaþjónustu, viðskiptaþjónustu og grænum orkuviðskiptum. 

Í því sambandi hyggst ESB halda áfram þeirri vinnu sem hefur átt sér stað á vettvangi Single Market Enforcement Task Force (SMET) og hefur nú þegar sett sér markmið um að leysa 90% þeirra mála sem rata á borð SOLVIT, sem er miðstöðvanet þvert á ríki innri markaðarins þar sem einstaklingar og fyrirtæki geta leitað ef þeir telja opinber yfirvöld brjóta á rétti sínum.

Til þess að tryggja samkeppnishæfni ESB til lengri tíma hyggst framkvæmdastjórn ESB vinna innan níu útlistaðra áherslusviða þ.e. að viðhalda virkum innri markaði, að viðhalda og tryggja aðgang að einkafjármagni og efla einkafjárfestingar, viðhalda og efla opinberar fjárfestingar, styðja við og efla rannsóknir og nýsköpun, hraða orkuskiptum, efla hringrásarhagkerfið, hraða stafrænni umbreytingu, efla menntun og færni og að tryggja sjálfræði ESB með opnum alþjóðlegum viðskiptum og nánara samstarfi við bandalagsþjóðir. 

Orðsendingar þessar koma í kjölfar umræðu og áhyggjuradda sem uppi hafa verið um hvert innri markaðurinn stefni nú á tímum aukinnar ríkisaðstoðar og einangrunarhyggju, sbr. t.d. IRA-löggjöf Bandaríkjamanna (e. Inflation Reduction Act) og framkvæmdaáætlun Græna sáttmála ESB, sbr. meðal annars umfjöllun hér að framan um framfylgd þeirrar áætlunar. Er orðsendingunum og þeirri stefnumörkun sem þar er sett fram til lengri tíma vafalaust ætlað að slá á þær áhyggjuraddir.

Fundur leiðtogaráðs ESB

Leiðtogar aðildarríkja ESB komu saman til reglulegs fundar á vettvangi leiðtogaráðs ESB í gær, 23. mars, og síðan jafnframt á vettvangi evruráðsins (e. Euro Summit) í dag, 24. mars.

Árásarstríð Rússlands gagnvart Úkraínu, refsiaðgerðir og varnar- og öryggismál almennt voru þungamiðja umræðunnar á fyrri fundardeginum. Framfylgd framkvæmaáætlunar Græna sáttmálans var einnig til umræðu, sbr. sérstaka umfjöllun um þau málefni hér að framan, og kölluðu leiðtogarnir eftir því að meðferð framkominna tillagna yrði hraðað. Þá var staða innri markaðar ESB og samkeppnishæfni markaðarins til lengri tíma til umræðu en til grundvallar þeirri umræðu lágu orðsendingar sem framkvæmdastjórn ESB gaf út í síðustu viku í tilefni af 30 ára afmæli innri markaðarins en einnig er fjallað sérstaklega um efni þeirra orðsendinga í Vaktinni hér að ofan. Auk þessa voru orku-, viðskipta-, fæðuöryggis- og innflytjendamál til umfjöllunar. Sjá nánar um ályktanir ráðsins um framangreind málefni hér. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, var sérstakur gestur fundarins og voru ýmis málefni tekin til umræðu á fundi ráðsins með honum, sjá nánar hér. Staða efnahags- og peningamála almennt og sérstaklega staða mála á fjármálamörkuðum voru umfjöllunarefni evruráðsfundarins, sbr. m.a. yfirlýsingar sem gefnar voru út í kjölfar fundarins, sjá hér og hér.

Fundur umhverfisráðherra ESB – umræður um fráveitutilskipun o.fl.

Umhverfisráðherrar ESB komu saman til fundar á vettvangi ráðherraráðs ESB þann 16. mars sl. Meðal umræðuefna á fundinum var tillaga að endurskoðaðri tilskipun um hreinsun skólps frá þéttbýli, svonefnd fráveitutilskipun, en um hana og afstöðu Íslands til málsins var fjallað í Vaktinni 10. mars sl.

Með tillögunni, sem er hluti af áætlun ESB um að ná svonefndri „núllmegnun“ (e. Zero pollution action plan) fyrir árið 2050, er lagt til að gildissvið núverandi tilskipunar verði útvíkkað þannig að skylda til hreinsunar á skólpi muni ná til smærri þéttbýlisstaða en áður, eða til fráveitu með 1.000 persónueiningar (pe.) í stað 2.000, auk þess sem kveðið er á um að stærri þéttbýli setji fram áætlun vegna yfirfalls frá regnvatni. Tillagan gerir ráð fyrir að sett verði bindandi orkuhlutleysismarkmið fyrir allar fráveitur með það að lokamarkmiði að fráveitugeirinn verði orkuhlutlaus árið 2040. Eru skólphreinsistöðvar í þéttbýli í þessu skyni hvattar til að framleiða orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum fyrir starfsemi sína og nota seyru til að framleiða gas til reksturs þeirra.

Í umræðum um framangreindar breytingar kom fram að samstaða væri um það í ráðinu að endurskoðun tilskipunarinnar væri tímabær og var tillögunni fagnað þar sem hún miðar að því ná yfir nýjar umhverfisógnir og bæta lýðheilsu og umhverfi. Eftir sem áður væri ljóst að það væri margt í tillögunni sem þyrfti að skoða betur. Meðal annars bentu margir ráðherrar á að tímafrestir væru- sumir mjög metnaðarfullir og ljóst að erfitt yrði að uppfylla kröfur fyrir tilsettan tíma. Breytingartillögunar krefjist m.a. uppbyggingar á nýjum innviðum og því sé mikilvægt að tímafrestir séu raunhæfir. Var í þessu samhengi m.a. bent á að mörg ríki eigi enn töluvert í land til að uppfylla kröfur núgildandi tilskipunar. Þá bentu nokkrir ráðherrar á að tillagan tæki ekki nægjanlegt tillit til mismunandi aðstæðna og að í sumum tilvikum væri nær að skoða kröfur til hreinsunar út frá viðtaka og staðbundnum aðstæðum en út frá fjölda persónueininga. Þá sé mikilvægt að taka sérstakt tillit til dreifbýlli svæða og tengja fráveitumál betur við stjórn vatnamála og ríma þær áhyggjuraddir við framkomna afstöðu Íslands í málinu. Auk þess kom fram í umræðum að skýra þyrfti betur hvað væri átt við með orkuhlutleysi (e. energy neutrality). Loks voru margir ráðherrar þeirra skoðunar að framkvæma þyrfti ítarlegra áhættumat og fara í frekari kostnaðar- og ábatagreiningu.

Í máli fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB á fundinum kom fram að framkvæmd gildandi tilskipunar hefði skilað miklum árangri og bætt vatnaumhverfi í Evrópu verulega. Nú þyrfti að halda áfram og setja markið enn hærra.

Svíar sem nú fara með formennsku í ráðherraráðinu, sem og Spánverjar sem taka munu við formennsku um mitt þetta ár, leggja mikla áherslu þetta mál og má vænta þess að markvisst verði unnið að málinu á næstunni enda þótt að tímalína áframhaldandi vinnu liggi enn sem komið er ekki fyrir.

Á fundinum samþykktu ráðherrarnir einnig samningsafstöðu (almenna nálgun) vegna væntanlegra viðræðna við Evrópuþingið og framkvæmdastjórn ESB um tillögu um breytingar á tilskipun um losun frá iðnaði. Á fundi umhverfisráðherra ESB þann 24. október 2022 var stefnumótandi umræða um tillöguna og jafnframt var farið yfir stöðu viðræðna um tillöguna á fundi ráðherranna þann 20. desember 2022. Stefnt er að því að klára málið á þessu ári.

Á fundinum fór auk þess fram stefnumarkandi umræða um tvö önnur mál. Annars vegar um tillögu um ramma utan um vottun á fjarlægingu kolefnis og hins vegar um tillögu um umbúðir og umbúðaúrgang en efnislega var fjallað um þá tillögu í Vaktinni 2. desember sl.

Tilskipun um grænar umhverfisfullyrðingar

Þann 22. mars sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að tilskipun um efni og miðlun grænna umhverfisfullyrðinga. Markmið tillögunnar er að berjast gegn svonefndum grænþvotti og villandi umhverfisfullyrðingum við markaðssetningu vöru og þjónustu og tryggja að neytendur geti með skýrari hætti gengið úr skugga um að vara sem seld er undir grænum formerkjum sé það í raun og veru. Regluverkið mun jafnframt gagnast þeim fyrirtækjum sem raunverulega leggja sig fram um að auka sjálfbærni í vöru- og þjónustuframboði sínu og hlífa þeim við óheiðarlegri og ósanngjarnri samkeppni. 

Framangreind tillaga kemur til viðbótar við tillögu framkvæmdastjórnarinnar frá því í mars 2022 sem einnig varðar grænar umhverfisfullyrðingar og bann við grænþvotti.

Tillagan er hluti af Græna sáttmálanum og þriðja tillögupakkanum, sem ætlað er að styðja við hringrásarhagkerfið, sbr. einnig framkomnar tillögur um viðgerðir á vörum sem fjallað eru um hér að neðan. Um fyrri tvo tillögupakkana um hringrásarhagkerfið var fjallað í Vaktinni 1. apríl sl.

Sjá nánar upplýsingablað  og vefsíðu um grænar umhverfisfullyrðingar.

Tilskipun um viðgerðir á vörum

Þann 22. mars sl. lagði framkvæmdastjórn ESB fram tillögu að nýrri tilskipun um sameiginlegar reglur sem ætlað er að stuðla að auknum viðgerðum á biluðum og skemmdum vörum. Markmiðið er að draga úr óþarfa sóun í hagkerfinu og þeim neikvæðu umhverfisáhrifum sem fylgir. Þróun síðustu áratuga hefur verið á þann veg að vörur sem bila eða skemmast eru gjarnan endurnýjaðar fremur en að gert sé við þær og líftími þeirra þannig lengdur. Er tilskipuninni ætlað að skapa hvata fyrir fólk til að láta gera við vörur sínar þegar það telst hagkvæmt auk þess sem í tillögunum felst hvatning fyrir framleiðendur vara til að þróa sjálfbærara viðskiptamódel. Þá muni aukin eftirspurn neytenda eftir viðgerðarþjónustu skila sér aukningu á framboðshlið slíkrar þjónustu.

Í tillögunni er kynnt til sögunnar ný regla sem felur í sér að neytendur eigi rétt til að óska viðgerðar þegar hún er möguleg, bæði innan og utan ábyrgðartíma vöru. Innan ábyrgðartíma vöru verður seljendum gert skylt að bjóða upp á viðgerðarþjónustu. Eftir að ábyrgð er útrunnin færist ábyrgð veitingu viðgerðarþjónustu að meginreglu yfir á framleiðanda vöru, samkvæmt nánari reglum.

Tillagan um „rétt til viðgerðar“ var kynnt í stefnumörkun um réttindi neytenda frá nóvember 2020 og í aðgerðaráætlun um hringrásarhagkerfið frá mars 2020.

Tillagan er viðbót við önnur tæki og úrræði sem ætlað er stuðla að því að neytendur taki upp sjálfbært neyslumynstur í auknum mæli í samræmi við markmið Græna sáttmálans. Á framboðshliðinni styður tilskipunin m.a. við markmið reglugerðar um visthönnun vara. Á eftirspurnarhliðinni, styður tillagan m.a. við markmið annarra tillagna sem ætlað er að efla neytendur til grænna umskipta.

Stefnumótun ESB á sviði siglingaöryggis

Þann 10. mars sl. birti framkvæmdastjórn ESB orðsendingu til Evrópuþingsins og ráðherraráðs ESB um endurskoðun stefnumótunar og aðgerðaáætlunar á sviði siglingaöryggis og hafverndar almennt. Með orðsendingunni er leitast við bregðast við sýnilegum ógnum á hafsvæðum sem fara vaxandi.

Mikilvægi hafsins fyrir efnahag ESB er mikið og fer vaxandi. Yfir 80% af vöruviðskiptum milli ríkja heims fer fram með sjóflutningum, um tveir þriðju af olíu og gasi er annað hvort flutt um hafsvæði eða unnið af hafsbotni. Þá fer allt að 99% af alþjóðlegum gagnaflutningum um sæstrengi.

Ráðherraráð ESB kallaði eftir endurskoðun á stefnumótun í siglingaöryggismálum um mitt ár 2021 en núgildandi stefnumótun er frá árinu 2014 og var hún síðast endurskoðuð árið 2018. Megin tilgangur siglingaöryggisáætlunar ESB er að vernda hagsmuni ESB á hafinu, þ.e. hagsmuni borgaranna, hagkerfisins og innviði og landamæri sambandsins. Henni er jafnframt ætlað að stuðla að vernd auðlinda og lífríkis hafsins og framfylgja alþjóðalögum svo sem Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá er markmiðið að byggja upp getu til að bregðast hratt við ógnum sem upp koma og tryggja nauðsynlega menntun og þjálfun í því skyni.

Í orðsendingunni eru sex megin viðfangsefni skilgreind:

  • Efling viðbúnaðar á sjó, meðal annars með skipulagningu flotaæfinga á vettvangi Evrópusambandsins, aukinni strandgæslu á evrópskum hafsvæðum og betri skilgreiningu hafsvæða sem krefjast vöktunar og samræmdrar viðveru á sjó og í lofti.
  • Aukið alþjóðlegt samstarf, meðal annars með því að efla samstarf ESB og NATO og annarra alþjóðlegra samstarfsaðila til að framfylgja regluverki á hafinu, einkum Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS).
  • Efling vöktunar og upplýsingaskipta, meðal annars með auknu almennu eftirliti gæsluskipa og með því að styrkja sameiginlegt upplýsingamiðlunarkerfi ESB á sviði siglingaöryggismála (e. Common Information Sharing Environment, CISE).
  • Aðgerðir til að auka getu til að bregðast við áhættu og ógnum, meðal annars með því að halda reglulega æfingar á sjó með sameiginlegri þátttöku borgaralegra og hernaðarlegra aðila, vakta og vernda mikilvæg grunnvirki o.s.frv.
  • Eflingu varnargetu, meðal annars með samræmingu krafna um varnartækni á hafi, með því að setja aukinn kraft í vinnu við þróun nýrrar tegundar herskipa, sbr. verkefnið „European Patrol Corvette“ og bæta varnir gegn kafbátum.
  • Aukinni þjálfun og endurmenntun, m.a. með það að markmiði að auka getu til að takast á við fjölþáttaógnir og netógnir.

Íslenskt lambakjöt hlýtur vernd sem skráð afurðarheiti í ESB

Framkvæmdastjórn ESB samþykkti skráninguna „Íslenskt lambakjöt“ (e. Icelandic lamb) sem verndað afurðarheiti í síðustu viku með tilkynningu í Stjórnartíðindum ESB. Íslenskt lambakjöt fékk vernd sem afurðarheiti á Íslandi árið 2018 og Íslensk lopapeysa árið 2020 og eru þetta einu afurðarheitin sem hafa fengið slíka vernd á Íslandi.

Lög um vernd afurðarheita voru samþykkt á Íslandi árið 2014. Tilgangur laganna er að vernda afurðarheiti sem vísa til uppruna, landsvæðis eða hefðbundinnar sérstöðu með það að markmiða að stuðla að neytendavernd, auka virði afurðar og koma í veg fyrir óréttmæta viðskiptahætti. Í lögunum er einnig kveðið á um vernd erlendra afurðarheita á Íslandi á grundvelli milliríkjasamnings um gagnkvæmisvernd.

Vernd afurða hefur tíðkast um árabil í nágrannalöndum okkar og á það t.d. við um osta frá Frakklandi og pylsur og hráskinku frá Ítalíu og Spáni. Í Evrópusambandinu tóku sambærileg lög gildi árið 2012.

Í gildi er samningur milli Íslands og Evrópusambandsins um vernd landfræðilegra merkinga landbúnaðarfurða og matvæla frá 2017. Samningurinn kveður á um gagnkvæma viðurkenningu á vernduðum afurðarheitum frá hvorum aðila um sig. Í samningnum eru skráð um 1200 afurðarheiti hjá ESB en engin hjá Íslandi en með skráningu afurðarheitisins Íslenskt lambakjöt af hálfu ESB verður það heiti væntanlega fært inn í samninginn við næstu endurskoðun.

Umsækjandi um vöruheitið Íslenskt lambakjöt var Icelandic lamb ehf. (áður Markaðsráð kindakjöts) sem er í eigu Landssamtaka sauðfjárbænda.

Fundur sameiginlegu þingmannanefndar EES – umræður um flugmálið

Reglulegur fundur sameiginlegu þingmannanefndar Evrópska efnahagssvæðisins (EES) og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) fór fram í Strassborg 15. og 16. mars sl. Nefndin samanstendur af þingmönnum þjóðþinga EES/EFTA-ríkjanna, Íslands, Noregs og Liechtenstein og þingmönnum Evrópuþingsins auk þess sem Sviss á áheyrnarfulltrúa í nefndinni.

Auk almennra umræðna um framkvæmd EES-samningsins voru eftirtalin mál m.a. til umræðu; staða mála í Úkraínu, grænu umskiptin og fjármögnun þeirra, sbr. m.a. viðbrögð ESB við IRA-löggjöf Bandaríkjanna, og hvernig varðveita megi samkeppnisstöðu innri markaðar EES alþjóðlega, annars vegar, og inn á við, hins vegar, þ.e. á milli aðildarríkja EES innbyrðis. Þá voru löggjafartillögur um auknar valdheimildir framkvæmdastjórnar ESB til ráðstafana á innri markaði í neyðaraðstæðum (e. Single Market Emergency Instrument – SMEI) m.a. til umræðu, sbr. nánar um efni þeirra tillagna í Vaktinni 23. september sl.

Á fundinum flutti fastafulltrúi Noregs gagnvart ESB og núverandi formaður EES-EFTA hliðar sameiginlegu EES-nefndarinnar, Rolf Einar Fife, ræðu um það sem er efst á baugi við rekstur samningsins frá sameiginlegum sjónarhóli EES/EFTA-ríkjanna.

Í umræðum á fundinum gerði formaður Íslandsdeildar þingmannanefndarinnar, Ingibjörg Ólöf Isaksen, fyrirhugaðar breytingar á viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir fyrir flug að umræðunefni og lýsti hún því yfir og útskýrði hvers vegna það væri nauðsynlegt fyrir Ísland að fá samþykkta sérstaka aðlögun fyrir Ísland við upptöku gerðarinnar í EES-samninginn. Í máli fulltrúa framkvæmdastjórnar ESB, Thomas McClenaghan, kom fram að ESB væri afar vel kunnugt um áhyggjur Íslands af málinu og að það hefði verið rætt á fjölmörgum fundum með fulltrúum Íslands, bæði á tillögustigi og síðar í ferlinu, vísaði hann þá jafnframt til þess að fyrirhugað væri að taka málið upp á fundi síðar í vikunni og vísaði hann þar til funda ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis með háttsettum embættismönnum framkvæmdastjórnarinnar, sbr. umfjöllun um þá fundi hér að framan. Kom fram í máli hans að tímaramminn til að ná niðurstöðu um málið væri knappur þar sem áætluð gildistaka breytinganna væri 1. janúar 2024 og að öll aðildarríki ESB þyrftu að samþykkja sérstaka undanþágu/aðlögun fyrir Ísland til að hún gæti komið til framkvæmda.

Horfa má á upptökur af fundinum á vef Evrópuþingsins, sjá hér fundarlotu þann 15. mars og hér fundarlotu þann 16. mars. Framangreindar umræður um flugmálið hefjast á fertugustu og sjöundu mínútu yfir þrjú þann fimmtánda.

Heimsókn ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis og utanríkisráðuneytis til Brussel

Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis, og Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis, heimsóttu Brussel nýlega. Tilgangur fararinnar var að fylgja eftir fyrirheiti í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þess efnis að aukin áhersla verði lögð á framkvæmd og þróun EES-samningsins þannig að hagsmunir og fullveldi Íslands í samstarfi og viðskiptum við önnur ríki verði tryggt.  Ráðuneytisstjórarnir áttu fundi með háttsettum embættismönnum innan ESB, þ.e. Ilze Juhansone, sem stýrir allsherjarskrifstofu framkvæmdastjórnar ESB, næstráðanda hennar, John Watson, og Stefano Sannino, ráðuneytisstjóra utanríkisþjónustu ESB.  Á fundunum var m.a. rætt um breytingar á  viðskiptakerfi með losunarheimildir í flugi, sem reglulega hefur verið fjallað um hér í Vaktinni, m.a. 24. febrúar sl. og viðbrögð ESB við bandarísku IRA-löggjöfinni, sbr. framkvæmdaáætlun Græna sáttmálans, en um þau málefni hefur einnig  verið fjallað ítarlega um í Vaktinni að undanförnu, m.a. 10. febrúar sl., sbr. einnig umfjöllun hér að framan um framfylgd þeirrar áætlunar.

Að auki áttu ráðuneytisstjórarnir fundi með starfsmönnum sendiráðsins þar sem skipulag hagsmunagæslu Íslands gagnvart ESB og í tengslum við rekstur EES-samningsins var rætt í víðu samhengi.

***

Brussel-vaktin, fréttabréf fastanefndar Íslands gagnvart Evrópusambandinu, er gefið út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum