Hoppa yfir valmynd
30. mars 2023 Utanríkisráðuneytið

Þyrla leigð fyrir íslenskt þróunarfé dreifir mat til nauðstaddra í Malaví

Þyrlan sem WFP leigir til matvæladreifingar í Malaví. Ljósmynd: WFP - mynd

Með fjárstuðningi frá Íslandi til Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP, í Malaví hefur tekist að dreifa 24 tonnum af mat með þyrlu til nauðstaddra í suðurhluta landsins. Dánartölur vegna fellibylsins Freddy hækka daglega og samkvæmt nýjustu upplýsingum eru 676 látnir í Malaví og 650 þúsund íbúar á vergangi. Flestir hafast við í þeim 500 bráðabirgðaskýlum sem komið hefur verið upp frá því óveðrið reið yfir um miðjan mánuðinn.

Að sögn Ingu Dóru Pétursdóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Lilongve tókst WFP með fjárstuðningi frá Íslandi að leigja þyrlu frá Suður-Afríku til að dreifa mat til þeirra svæða þar sem ekki hefur enn tekist að komast til landleiðina. “Það er ánægulegt að segja frá því að Ísland var eitt af fyrstu framlagsríkjunum til þess að veita lífsnauðsynlegan stuðning,” segir Inga Dóra.

Að mati samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, OCHA, þarf Malaví tafarlausa aðstoð til að takast á við sjúkdóma sem breiðast þessa dagana hratt út í bráðabirgðaskýlunum fyrir þá sem misstu heimili sín en héldu lífi. Mengað drykkjarvatn og ófullnægjandi hreinlætisaðstaða eru kjöraðstæður fyrir útbreiðslu sjúkdóma eins og kóleru sem var útbreidd í landinu áður en óveðrið skall á. Bráðir öndunarfærasjúkdómar hafa einnig gert vart við sig í sumum skýlunum og malaríutilvikum fjölgar.

Khumbize Kandodo Chiponda heilbrigðisráðherra Malaví segir skort á heilbrigðisstarfsfólki eina helstu áskorun stjórnvalda. Hún segir að á síðustu tveimur vikum hafi verið ráðnir 300 heilbrigðisstarfsmenn en þörf sé á fleirum og Malaví þurfi um þrjár milljónir bandarískra dala til að takast á við ástandið í heilbrigðismálum eftir fellibylinn.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum