Hoppa yfir valmynd
31. mars 2023 Matvælaráðuneytið

Landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd eru uppistaða nýrrar landbúnaðarstefnu ásamt tækni og nýsköpun

Landnýting, loftslagsmál og umhverfisvernd eru uppistaða nýrrar landbúnaðarstefnu ásamt tækni og nýsköpun - myndiStock/StockSeller ukr

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mælti fyrir þingsályktunartillögu um landbúnaðarstefnu á Alþingi í gær. Stefnan er mörkuð til ársins 2040 og byggir á skjalinu Ræktum Ísland ásamt áherslum matvælaráðherra og nýs matvælaráðuneytis eftir að það tók til starfa hinn 1. febrúar 2022.

Heimsfaraldur kórónuveiru og innrás Rússlands í Úkraínu hafa að auki breytt ýmsum forsendum gagnvart fæðuöryggi þjóðarinnar og því er sérstök áhersla lögð á fæðuöryggi, loftslagsmál og hringrásarhagkerfi í stefnudrögunum.

Landnýting, loftslagsmál, umhverfisvernd ásamt tækni og nýsköpun eru þær lykilbreytur sem talið er að muni hafa mikil áhrif á þróun landbúnaðar í heiminum á komandi árum og byggir landbúnaðarstefnan á þeim. Í tillögunni er sett fram metnaðarfull framtíðarsýn varðandi heildarumgjörð landbúnaðar sem tekur jafnframt til umhverfis, samfélags og samkeppnishæfni landbúnaðarafurða.

Til að framtíðarsýnin verði að veruleika er áhersla lögð á tíu meginviðfangsefni:

  • Fæðuöryggi
  • Loftslagsmál
  • Líffræðileg fjölbreytni
  • Landnýting og varðveisla landbúnaðarlands
  • Hringrásarhagkerfið
  • Alþjóðleg markaðsmál
  • Neytendur
  • Nýsköpun og tækni
  • Menntun, rannsóknir og þróun
  • Fyrirkomulag stuðnings við landbúnað

Meginmarkmið stefnunnar er að efla og styðja við íslenskan landbúnað þannig að Ísland verði leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Til þess að hrinda stefnunni í framkvæmd er kveðið á um að gerðar verði aðgerðaáætlanir til fimm ára í senn.

„Með því að leggja fram stefnumörkun til lengri tíma tel ég að við séum að ná mikilvægum áfanga í því að auka fyrirsjáanleika, bæði fyrir bændur og neytendur. Einfaldara verði að meta árangur af stefnumótun þegar mælikvarðar verði lagðir til grundvallar markmiðum í landbúnaðarstefnu“ sagði matvælaráðherra. „Ég finn það á fundum mínum með bændum að það skiptir máli að við sem þjóð höfum stefnu í málefnum landbúnaðar, umfram það sem kemur fram í markmiðum laga og búvörusamninga. Það skiptir miklu máli að grunnur landbúnaðar sé traustur“.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

12. Ábyrð neysla og framleiðsla
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin
15. Líf á landi
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
8. Góð atvinna og hagvöxtur
9. Nýsköpun og uppbygging
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum