Hoppa yfir valmynd
14. apríl 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Leiðir kannaðar til bættrar orkunýtingar og -öflunar

Ásmundur Friðriksson. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað starfshóp til að kanna möguleika þess að  nota fleiri leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar. Er þar m.a. átt við aðra orkukosti en þá sem felast í vatnsafli (yfir 10 MW), jarðvarma og vindi.

Skýrsla um stöðu og áskoranir í orkumálum (Grænbók) kom út í mars í fyrra og sýndu sviðsmyndir hennar fram á mikla þörf fyrir orkuöflun á komandi áratugum til að tryggja orkuöryggi landsmanna, sem og til að mæta eftirspurn sem kemur til vegna orkuskipta. Starfshópnum hefur verið falið að vinna á þeim grunni og draga skal saman hvaða upplýsingar og þekking sé þegar til staðar varðandi aðra orkukosti en þá sem felast í vatnsafli (yfir 10 MW), jarðvarma og vindi. Þá á hann að kanna fýsileika og framboð, sem og að varpa ljósi á mögulegar hindranir sem standa í vegi fyrir framþróun og hvaða leiðir séu færar til að orkukostirnir verði nýttir í meira mæli.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Til að stjórnvöld nái markmiðum sínum í loftslagsmálum er brýnt er að kanna alla möguleika þess að nota fleiri leiðir til bættrar orkunýtingar og orkuöflunar. Það verður verk starfshópsins að taka saman hvaða leiðir kunna að vera færar til að orkukostir verði nýttir í meiri mæli en nú er.“ 

Á hópurinn að skoða orkukosti sem standa utan rammaáætlunar, m.a. hvaða möguleikar felast í:

  • smávirkjunum fyrir vatnsafl
  • sólarorkuverum
  • sjávarfallavirkjunum
  • varmadæluvæðingu á stærri skala
  • sólarsellum, vindorku og varmadælum á smærri skala
  • nýtingu glatvarma
  • sveigjanlegri notkun og bættri orkunýtni
  • Aðrir kostir

 

Starfshópinn skipa:

Ásmundur Friðriksson, alþingismaður, formaður,

Gunnlaug Helga Ásgeirsdóttir, sjávarútvegsfræðingur

Lilja Rafney Magnúsdóttir, fyrrverandi alþingismaður.

 

Starfshópurinn á að skila tillögu til ráðherra fyrir 1. október á þessu ári.

 

 

 

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum