Hoppa yfir valmynd
17. apríl 2023 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Fyrsta afsali vegna fasteignakaupa þinglýst rafrænt – yfir milljarður sparast á ári

Fyrsta fasteignasalan þinglýsti í síðustu viku afsali vegna fasteignakaupa með rafrænum hætti og er það stór áfangi í verkefni sem unnið hefur verið að í samstarfi Stafræns Íslands við ráðuneyti og stofnanir um rafrænar þinglýsingar. Má áætla að ávinningur af rafrænum þinglýsingum verði á bilinu 1,2-1,7 milljarðar króna á ári þegar þær verða að fullu komnar til framkvæmda.

Nú hafa fasteignasölurnar Ás og Procura náð þeim áfanga að geta gengið frá lokaskrefi fasteignakaupa sinna viðskiptavina með rafrænum hætti, svo ekki þarf lengur að gera sér ferð á skrifstofu sýslumanna í Hlíðarsmára til að ganga frá viðskiptum. Þinglýsing afsals er lokaskrefið í uppgjöri seljanda og kaupanda í fasteignaviðskiptum og innsiglar flutning eignarinnar frá þeim fyrrnefnda til þess síðarnefnda og hefur aðdragandi þessa lokaáfanga verið langur og undirbúningur mikill.

Næstu stóru áfangar verkefnisins verða að bjóða upp á rafræna þinglýsingu á öllum skjölum sem tengjast fasteignakaupum einstaklinga í þéttbýli. Til að það sé hægt þarf að bæta við möguleikanum á að þinglýsa kaupsamningum og veðleyfum með rafrænum hætti og stendur til að ljúka þeirri vinnu á seinnihluta þessa árs.

Óþarfi að fara með pappíra á milli aðila

Í upphafi verkefnisins var lagt mat á þjóðhagslegan ávinning af rafrænum þinglýsingum. Þegar handvirkt vinnuframlag fasteignasala, lánveitenda og sýslumanna sem verður óþarft með tilkomu lausnarinnar er tekið saman er áætlaður ávinningur af notkun hennar metinn á bilinu 1,2–1,7 milljarðar króna á ári. Ofan á það bætist svo ávinningur af því að ekki þarf að ferðast með pappírsskjöl á milli aðila og aukinn hraði viðskipta fyrir lánveitendur og fasteignasala.

Verkefni um rafrænar þinglýsingar hefur verið í þróun frá árinu 2019 og er samstarfsverkefni Stafræns Íslands, sýslumanna, dómsmálaráðuneytisins, Þjóðskrár Íslands og Húsnæðis- og Mannvirkjastofnunar. Rafrænar þinglýsingar eru lykilþáttur í að Ísland verði fremst í flokki í stafrænni stjórnsýslu.

Nánari upplýsingar um rafrænar þinglýsingar á Ísland.is  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum