Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2023 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Ánægja með nám og námsumhverfi við Landbúnaðarháskóla Íslands

Ánægja með nám og námsumhverfi við Landbúnaðarháskóla Íslands  - myndLandbúnaðarháskóli Íslands

Gæðaráð íslenskra háskóla hefur birt niðurstöður úttektar á getu Landbúnaðarháskóla Íslands til þess að tryggja gæði þeirra námsgráða sem hann veitir og þess námsumhverfis sem hann býður nemendum sínum.

Úttektin er liður í reglubundnu ytra mati Gæðaráðs með gæðum íslenskra háskóla. Úttektina má nálgast hér.

Traust til starfshátta og getu til að tryggja gæði

Úttektarteymið ber traust til starfshátta og getu Landbúnaðarháskóla Íslands til að tryggja gæði þeirra gráða sem hann veitir og gæði námsumhverfis, í nútíð og til nánustu framtíðar.

Styrkleikar Landbúnaðarháskólans samkvæmt helstu niðurstöðum úttektarinnar liggja í metnaðarfullri stefnu sem hefur verið í stöðugri innleiðingu. Rannsóknarstarfsemi hefur verið efld síðastliðin ár og stefnir háskólinn að því að auka verulega rannsókna- og þróunarstarf sitt með aukinni sókn í samkeppnissjóði. Samfélag Landbúnaðarháskólans er náið þar sem óformlegt samstarf er á milli stjórnenda, starfsfólks og nemenda. Starfsfólk, nemendur og hagsmunaaðilar hafa ástríðu fyrir sameiginlegri sýn stofnunarinnar, hlutverki hennar og málefnum nemenda. Nemendur eru hvattir þess að taka virkan þátt í að skapa og þróa sitt lærdómsferli.

Úttektarhópurinn hvetur stofnunina til að virkja kennara í gæðastarfi ásamt því að efla sameiginlegt eignarhald og meðvitund á gæðum í öllu starfi háskólans. Einnig er bent á að efla þurfi menningu um tvítyngi samfara stefnumótun háskólans um alþjóðavæðingu, og auka aðgengi að öllum nauðsynlegum upplýsingum á ensku jafnt sem íslensku.

Gæðaráð íslenskra háskóla starfar fyrir háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðuneytið en markmið eftirlits þess er m.a. að bæta kennslu og rannsóknir á vettvangi íslenskra háskóla, tryggja að skilyrði fyrir viðurkenningu ráðherra á fræðasviðum háskóla séu uppfyllt og tryggja samkeppnishæfni íslenskra háskóla á alþjóðavettvangi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum