Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur starfshóps um vegvísun og fjarráðgjöf í heilbrigðiskerfinu

Tillögur starfshóps um vegvísun og fjarráðgjöf í heilbrigðiskerfinu - myndHeilbrigðisráðuneytið
Starfshópur á vegum Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra, um vegvísun og fjarráðgjöf í heilbrigðiskerfinu hefur skilað tillögum sínum um framtíðarfyrirkomulag þjónustunnar. Markmiðið er að tryggja almenningi greiðar og samræmdar upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og vísa fólki rétta leið í heilbrigðiskerfinu í samræmi við aðstæður og þörf hlutaðeigandi fyrir þjónustu hverju sinni. Horft er til þess að bæta þjónustu við sjúklinga, jafnframt því að draga úr og dreifa álagi á heilbrigðiskerfið.

Með vegvísun og fjarráðgjöf er átt við samskipti með fjarlausnum, s.s. netspjalli og símaráðgjöf, auk fræðslu á vef o.fl., þar sem notendum eru veittar upplýsingar um forvarnir, greiningu og meðferð sjúkdóma, hvenær eigi að leita til heilbrigðisstarfsfólk og hvert eigi að sækja þjónustuna, auk ráðlegginga um viðeigandi viðbrögð og/eða meðferð við einkennum eða sjúkdómum.

Um 600.000 erindi á liðnu ári + 5,4 milljónir heimsókna á þekkingarvef heilsuveru.is

Þeir sem nú sinna almennri fjarráðgjöf og vegvísun til notenda heilbrigðiskerfisins eru Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (s. 1700, s. 543-1700 + netspjall á heilsuvera.is), Læknavaktin (s. 1770), Neyðarlínan (s. 112) og eftir atvikum eitrunarmiðstöð Landspítala (s. 543 2222). Enn fremur rekur Rauði krossinn á Íslandi hjálparsíma fyrir almenning (s. 1717) og einnig Píeta-samtökin (s. 552-2218). Alls voru erindi til þessara aðila um 600.000 talsins árið 2022, eða rúmlega 1.600 dag hvern. Heimsóknir á þekkingarvef Heilsuveru (heilsuvera.is) voru um 5,4 milljónir á liðnu ári. Í þessum tölum eru ekki upplýsingar um fjarþjónustu sem veitt er í umtalsverðum mæli á einstökum starfsstöðvum, s.s. heilsugæslustöðva og sjúkrahúsa og fer t.d. fram með símatímum lækna og hjúkrunarfræðinga, tölvupóstum eða netspjalli.

Helstu niðurstöður starfshópsins

  • Starfshópurinn mælir með því að Neyðarlínan sinni áfram neyðarsímvörslu í síma 112. 
  • Fjarráðgjöf og vegvísun (þ.e. upplýsingavefur, netspjall og símsvörun) sem hingað til hefur verið sinnt af Upplýsingamiðstöð Heilsugæslunnar og Læknavaktinni verði sameinuð hjá einum þjónustuveitanda frá 1. janúar 2024. Símaþjónusta eitrunarmiðstöðvar verði einnig færð þangað. Eitt símanúmer verði fyrir þessa þjónustu á landsvísu, allan sólarhringinn, auk netfræðslu og netspjalls á heilsuvera.is. 
  • Grunnráðgjafarþjónusta heilsugæslu verði varin og þar með símaþjónusta heilsugæslustöðva á opnunartíma. Landspítali og Sjúkrahúsið á Akureyri veiti áfram símaþjónustu fyrir skjólstæðinga sína og byggi upp og skilgreini hlutverk símaþjónustu fyrir faglegan stuðning við heilbrigðisstarfsfólk.
  • Þjónustuveitandi sameinaðrar þjónustu fái umboð og bolmagn til að þróa þjónustuna og innleiða nýjungar eins og nánar er lýst í skýrslu starfshópsins. Sjálfstæði þjónustunnar verði tryggt og að hún starfi í þágu allra veitenda heilbrigðisþjónustu jafnt, óháð rekstrarformi.

Næstu skref

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið í samræmi við tillögu starfshópsins að koma á formlegu samstarfi Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslunnar og símaþjónustu Læknavaktarinnar undir forystu heilbrigðisráðuneytisins. Nokkur munur er á þjónustu þessara aðila og er markmiðið að samræma hana þannig að svörun og leiðbeiningar byggi á samhæfðum verklagsreglum og vinnuferlum. Samráðshópnum verður jafnframt falið að halda mánaðarlega fundi með veitendum heilbrigðisþjónustu til að kynna þeim starfsemina, fjalla um innleiðingu nýjunga og fá endurgjöf. 


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum