Hoppa yfir valmynd
28. apríl 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Norrænn samvinna um lyfjamál styrkt með nýrri stefnu

  - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti

Samráðsvettvangur Norðurlandaþjóða á sviði lyfjamála (Nordisk Lægemiddel Forum (NLF)) hefur sett sér stefnu um samstarfið til ársins 2025. Megináherslur stefnunnar lúta að skapandi lausnum í samstarfi þjóðanna við útboð og kaup á lyfjum, öruggt framboð lyfja og sterka norræna rödd á evrópskum vettvangi. 

Samráðsvettvangurinn NLF var formgerður árið 2015 með samvinnu Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur um þekkingarmiðlun, lyfjaútboð og innkaup. Ísland bættist í hópinn árið 2017 og Finnland skömmu síðar. Markmiðið hefur verið að miðla þekkingu, deila verkefnum og stuðla að hagkvæmari lyfjainnkaupum með sameiginlegum innkaupum.

Breytilegur heimur – lærdómur síðustu ára

Lærdómur á tímum heimsfaraldurs, ýmsar breytingar á skipan lyfjamála í Evrópu og fyrirséður vaxandi lyfjakostnaður Norðurlandaþjóðanna með hækkandi meðalaldri íbúa eru allt þættir sem kölluðu á að NLF mótaði sér nýja stefnu sem nú hefur verið staðfest. COVID-19 leiddi í ljós hve lyfjamarkaðurinn er samtengdur á heimsvísu og viðkvæmur fyrir hvers kyns frávikum. Evrópusambandið mótaði nýja lyfjastefnu árið 2020 og ný evrópsk lyfjalöggjöf er í burðarliðnum. Þá hefur Evrópusambandið sett á fót nýja stofnun, The Health Emergency Preparedness and Response (HERA) sem m.a. hefur að markmiði að tryggja lyfjabirgðir á tímum heilsuvár.

Nýja stefnan

Í nýrri stefnu NLF er m.a. horft til þess að beita skapandi lausnum til að tryggja öruggt aðgengi sjúklinga að lyfjum, bæði nýjum og gömlum. Liður í því er að skima skipulega fyrir nýmælum sem gætu verið í vændum (Horizon Scanning) sem gerir kleift að semja tímanlega við birgja og undirbúa útboð. 

Norðurlandaþjóðirnar miðla sín á milli upplýsingum um lyfjaskort og viðbrögð við honum og munu halda því áfram. Annar þáttur sem skiptir máli til að tryggja nægt framboð lyfja er framleiðsla sjúkrahúsapóteka á forskriftarlyfjum. Í stefnunni er lýst vilja þjóðanna til að miðla upplýsingum um þróun og framleiðslu slíkra lyfja.

Ísland, Noregur og Danmörk hlutu á liðnu ári evrópsk verðlaun fyrir fyrsta samnorræna lyfjaútboðið þar sem umhverfisviðmið voru m.a. lögð til grundvallar. Í nýrri stefnu er undirstrikuð áhersla á grænar leiðir við að ná hagstæðum lausnum fyrir opinber heilbrigðiskerfi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum