Hoppa yfir valmynd
10. maí 2023 Heilbrigðisráðuneytið

Til umsagnar: Breyting á geymslutíma kynfrumna og fósturvísa vegna tæknifrjóvgunar

Birt hafa verið til umsagnar drög að breytingu á reglugerð um tæknifrjóvgun sem gerir ráð fyrir að hámarksgeymslutími kynfrumna og fósturvísa verði rýmkaður til muna. Ýmis sjónarmið liggja að baki áformaðri breytingu þar sem horft hefur verið til ólíkra aðstæðna fólks, t.d. sem hefur ungt að aldri þurft að geyma kynfrumur vegna veikinda en gæti enn verið á barneignaaldri þegar núgildandi hámarksgeymslutími kynfrumna er liðinn.

Samkvæmt lögum um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna skal ráðherra setja reglur um hve lengi má geyma kynfrumur og fósturvísa í samræmi við bestu læknisfræðilega þekkingu á hverjum tíma.

Gildandi reglugerð kveður á um að hámarksgeymslutími fósturvísa sé 10 ár og kynfrumna 20 ár. Að þeim tíma liðnum er fósturvísum og kynfrumum eytt, óháð vilja hlutaðeigandi aðila. Bent hefur verið á að núverandi fyrirkomulag þrýsti með ósanngjörnum hætti á að fólk nýti fósturvísa og kynfrumur innan ákveðins tíma, óháð aðstæðum. 

Geymslutími fósturvísa verði 35 ár og kynfrumna 50 ár

Áformuð reglugerðarbreyting felur í sér að hámarksgeymslutími fósturvísa verði 35 ár og kynfrumna 50 ár. Með breytingunni verður komið betur til móts við ólíkar aðstæður fólks með áherslu á málefnaleg sjónarmið. Fyrir liggja rannsóknir sem sýna að með nútímatækni dvína gæði fósturvísa og kynfrumna almennt ekki með lengdum geymslutíma. Ef horft er til annarra landa má nefna að í Svíþjóð er geymslutími fósturvísa 10 ár en hægt að framlengja hann til samræmis við skilgreindan barneignaaldur hlutaðeigandi. Í Noregi miðast geymslutími fósturvísa við barneignaaldur sem skilgreindur er að hámarki 46 ár og engin takmörk eru á geymslutíma kynfrumna. Í Bretlandi var geymslutími kynfrumna nýlega hækkaður í 55 ár.

Frestur til að skila inn umsögnum við reglugerðardrögin er til 23. maí næstkomandi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum