Hoppa yfir valmynd
15. maí 2023 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fundaði með forsætisráðherra Portúgal

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og António Costa, forsætisráðherra Portúgal - mynd

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra átti í dag fund með António Costa, forsætisráðherra Portúgal, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. Costa er staddur hér á landi vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins sem hefst í Hörpu á morgun.

Á fundinum ræddu forsætisráðherrarnir samskipti ríkjanna tveggja og hvernig hægt sé að efla þau enn frekar. Er þar m.a. horft til samstarfs um málefni hafsins, uppbyggingu grænna orkulausna, menntamál og á vettvangi alþjóðastofnana.

Þá ræddu forsætisráðherrarnir leiðtogafund Evrópuráðsins og væntingar um að hann skili raunverulegum niðurstöðum fyrir ábyrgðarskyldu vegna stríðsreksturs Rússlands í Úkraínu og um að efla vinnu ráðsins, m.a. hvað varðar lýðræði, réttinn til heilnæms umhverfis og vernd mannréttinda þegar kemur að þróun gervigreindar. Að fundinum loknum ræddu forsætisráðherrarnir við blaðamenn. Costa mun síðar í dag heimsækja Hellisheiðarvirkjun og Sjávarklasann.

Fyrr í dag flutti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarp við athöfn í Veröld þar sem tilkynnt var um stofnun jafnréttisverðlauna Evrópuráðsþingsins í nafni Vigdísar Finnbogadóttur. Verða verðlaunin, sem eru stofnuð í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu og kallast Vigdís Prize for Women‘s Empowerment, veitt árlega fyrir framúrskarandi verkefni eða framtak á sviði jafnréttismála með hliðsjón af valdeflingu kvenna á opinberum vettvangi.

Verðlaunaféð mun nema 60 þúsund evrum, eða sem nemur um 9 milljónum íslenskra króna, og hefur ríkisstjórnin samþykkt að fjármagna verðlaunin þegar þau verða veitt í fyrsta sinn í júní á næsta ári. Hægt verður að tilnefna einstaklinga, fyrirtæki, félög og samtök, hvort sem þau eru staðbundin eða alþjóðleg, til verðlaunanna.

Þá tekur forsætisráðherra þátt í pallborði um næstu skref í vernd mannréttinda á fundi stjórnarnefndar Evrópuráðsþingsins síðar í dag og fjallar þar m.a. um næstu kynslóð mannréttinda og leiðir til þess að vernda mannréttindi ýmissa hópa sem vegið er að víða um heim.

Hægt er að nálgast fleiri myndir á flickr-síðu forsætisráðuneytisins

  • Forsætisráðherra fundaði með forsætisráðherra Portúgal - mynd úr myndasafni númer 1
  • Forsætisráðherra fundaði með forsætisráðherra Portúgal - mynd úr myndasafni númer 2
  • Forsætisráðherra fundaði með forsætisráðherra Portúgal - mynd úr myndasafni númer 3

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum