Hoppa yfir valmynd
7. júlí 2023 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra heimsækir ríkislögreglustjóra

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, heimsótti nýverið höfuðstöðvar ríkislögreglustjóra. Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri tók á móti ráðherra og fylgdarliði hennar en dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglumála í landinu og fer ríkislögreglustjóri með málefni lögreglunnar í umboði ráðherrans.

Í kynningu sem yfirmenn hjá RLS fluttu fyrir ráðherra kom fram það markmið að lögreglan sé öflug, samhent og vel rekin. Sýn embættisins er sú að vinna að öruggara samfélagi og að sett markmið væri að vera þjónustudrifin, framsækin og upplýsandi.

Ríkislögreglustjóri ber ábyrgð á rekstri og þróun á kerfum lögreglunnar, sér um halda utan um skráningu og helstu tölfræði mála og ekki síður að setja fram þau gögn innan og utan lögreglunnar. Aðgangur lögreglu að upplýsingum sem nýtast lögreglunni til að sinna störfum sínum á skilvirkari hátt eru í sífelldri þróun. Dómsmálaráðherra fékk einnig snögga kynningu á sérsveit lögreglunnar og heimsótti þá starfsmenn hennar sem voru á vakt. Hlutverk og ábyrgð greiningardeildar lögreglu var reifað en í verkefnum þar hefur verið vaxandi þungi að undanförnu í tengslum við breytt landslag öryggis- og varnarmála í álfunni.

Nokkur umræða spannst um verulega eflingu sem orðið hefur á mennta- og fræðslumálum lögreglu undanfarið. Helstu farvegir náms hjá lögreglunni er í gegnum BA nám við Háskólann á Akureyri samhliða starfsnámi í Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu, árleg skylduþjálfun lögreglunnar og styttri námskeið fyrir allt starfsfólk lögreglunnar.

Undanfarið hefur verið unnið mikið starf í að samstilla og samhæfa samskipti lögreglunnar við fjölmiðla, opinbera aðila og almenning allan. Stigin hafa verið skref í því að samstilla og þjálfa upp faglega upplýsingagjöf lögreglu.

Í heimsókn ráðherra kom enn fremur fram að mikil fræðsla og þekking hafi orðið til í tengslum við leiðtogafundinn sem haldinn var í Reykjavík í maí. Útlit væri fyrir að það markmið næðist að lögreglan stæði sterkari eftir, að loknu því risavaxna verkefni. Tengt því var það nefnt við ráðherra að norræn samvinna hafi komið vel út og verið hnökralaus í tengslum við leiðtogafundinn.

Á myndinni eru Eygló Harðardóttir verkefnastjóri afbrotavarna hjá RLS, Jón F. Bjartmarz sérfræðingur í lögreglumálum, Helgi Valberg Jensson yfirlögfræðingur hjá RLS, Gunnar Hörður Garðarsson samskiptastjóri RLS , María Rún Bjarnadóttir forstöðukona mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu, Halldór Halldórsson fjármálastjóri RLS, Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn öryggissviðs og greiningardeildar RLS, Rannveig Þórisdóttir sviðsstjóri þjónustusviðs RLS, Hreinn Loftsson aðstoðarmaður ráðherra, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri, Haukur Guðmundsson ráðuneytisstjóri og Ragna Bjarnadóttir skrifstofustjóri.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum