Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Beita gervigreind gegn gullhúðun

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er ráðherra netöryggismála. - myndLjósmynd: Jón Snær Ragnarsson

Háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytið hóf vinnu í sumar, með nokkrum aðilum á sviði gervigreindar, við að greina hvort gullhúðun hafi átt sér stað á EES-gerðum á málefnasviði ráðuneytisins. Verkefnið er eitt af verkefnum ráðuneytisins í aðgerðaáætlun um gervigreind sem unnið hefur verið að á undanförnum mánuðum. Með notkun gervigreindar er hægt að greina gullhúðun á gildandi löggjöf án þess að kosta til þess fjölda vinnustunda sérfræðinga ráðuneytisins. Þá kann notkun gervigreindar að greina mynstur og tengsl innan lagabálkanna sem gætu annars farið fram hjá hefðbundinni greiningu.

„Það er mikið framfaraskref að geta með markvissari hætti nýtt gervigreind hjá hinu opinbera. Að nýta gervigreind til að greina gullhúðun, hvar við höfum gengið of langt í innleiðingu EES-gerða, sparar tíma og fjármuni ásamt því að vonandi leiða til þess að að einfalda regluverk. Við byrjum á málaflokkum ráðuneytisins t.d. regluverki fjarskiptafyrirtækja og ég bind vonir við að fleiri ráðuneyti geti síðan nýtt sér lausnina. Það er mikilvægt fyrir fólk og fyrirtæki að laga- og regluumhverfi sé ekki meira íþyngjandi hér en annarsstaðar,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sem fer með málefni gervigreindar.

Verkefnið er þegar hafið og frumniðurstöður verða tilbúnar seinna í haust. Hingað til hefur áhersla verið lögð á að þróa leiðbeiningar (e. prompt) fyrir mállíkönin, sem er gert með prófunarferli. Með vel samsettum leiðbeiningum er hægt að fá nákvæmari og markvissari niðurstöður. Auk þess nýtir tólið ELO-stigakerfi til að forgangsraða mögulegum tilfellum gullhúðunar eftir áhrifum, til að tryggja að mikilvægustu tilfellin séu tekin til nánari skoðunar hjá ráðuneytinu. Ef verkefnið tekst vel gætu önnur ráðuneyti nýtt sér lausnina til að greina hvort gullhúðun hafi átt sér stað á þeim málefnasviðum sem undir þau falla.

Sú nálgun sem hér er stuðst við hefur verið prófuð í Bandaríkjunum. Má hér nefna að Ohio-ríki hefur nýtt sér gervigreind til að greina óþarfar og úreltar reglur í gildandi löggjöf. Með notkun gervigreindar fundust úreltar reglur, eins og reglur um lottóleiki sem eru ekki lengur í notkun, auk endurtekins texta í byggingar- og eldvarnarreglugerðum þar sem vikið var frá því sem tíðkaðist í öðrum ríkjum Bandaríkjanna. Talið er að brotthvarf þessara íþyngjandi krafna í regluverki Ohio-ríkis muni spara um það bil 58.000 vinnustundir á næsta áratug. 

Fyrr í sumar kom út skýrsla starfshóps á vegum utanríkisráðherra um aðgerðir gegn gullhúðun EES-gerða. Ein af fimm tillögu hópsins var að hvert ráðuneyti myndi skoða hvort gullhúðun hafi átt sér stað á málefnasviðum sínum í gildandi löggjöf og taki upplýsta afstöðu til þess hvort ástæða sé til að „afhúða löggjöfina“. Í meginatriðum telst gullhúðun vera þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra við innleiðingu og setja meira íþyngjandi ákvæði en þær lágmarkskröfur sem gerðar eru í EES-gerðum. Þetta er því ákvörðun stjórnvalda í hverju landi að bæta einhverju við lagaramma sem ríkinu er ætlað að innleiða frá ESB. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að það séu skýrar vísbendingar um að gullhúðun í íslenskri löggjöf sé talsvert algeng. Þá skorti í sumum tilfellum gagnsæi og rökstuðning þegar gullhúðun er beitt þrátt fyrir reglur þar um.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum